Endurkoma Vals skilaði stigi á Víkingsvelli

Viktor Örlygur Andrason og Tryggvi Hrafn Haraldsson eigast við í …
Viktor Örlygur Andrason og Tryggvi Hrafn Haraldsson eigast við í Víkinni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurliðin Víkingur og Valur skildu jöfn 2:2 í Bestu deild karla í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld. Úrslitin þýða að liðin eru enn í þriðja og fjórða sæti. Víkingur með 32 stig, tíu stigum á eftir toppliði Breiðabliks og Valur í sætinu fyrir neðan með 31 stig.

Fyrri hálfleikur var hin mesta skemmtun og bæði lið fengu fullt af færum til að skora. Ingvar Jónsson varði nokkrum sinnum glæsilega í marki Víkings á meðan Víkingar áttu tvö skot í stöngina á fyrstu 20 mínútunum en enn var staðan markalaus.

Það breyttist loksins á 26. mínútu þegar Helgi Guðjónsson kláraði glæsilega á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá Pablo Punyed. Markið gaf Víkingum aukið sjálfstraust og staðan var orðin 2:0 sjö mínútum síðar. Bandaríski miðvörðurinn Kyle McLagan skoraði þá af stuttu færi eftir horn frá Danijel Djuric, en markið var það fyrsta sem McLagan skorar í efstu deild.

Valur lét ekki árar í bát, því gestirnir minnkuðu muninn á 39. mínútu með marki frá Tryggva Hrafni Haraldssyni, beint úr aukaspyrnu við vítateigslínuna. Tryggvi skoraði einmitt beint úr aukaspyrnu gegn Stjörnunni í síðasta leik. Þrátt fyrir færi beggja liða til að skora fleiri mörk var staðan í leikhléi 2:1, Víkingum í vil.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og pressuðu Víkinga töluvert. Það skilaði sér í jöfnunarmarki á 58. mínútu er Oliver Ekroth skoraði sjálfsmark. Ágúst Eðvald Hlynsson átti þá hættulega fyrirgjöf og sænski varnarmaðurinn tæklaði boltann í eigið mark.

Þrátt fyrir góð færi báðum megin tókst liðunum ekki að knýja fram sigurmark og skiptu þau því með sér stigunum. 

Víkingur R. 2:2 Valur opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert