Fyrsti sigurinn í rúma þrjá mánuði

FH-ingurinn Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttunni í Hafnarfirðinum í kvöld.
FH-ingurinn Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttunni í Hafnarfirðinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hinn 19 ára gamli Úlfur Ágúst Björnsson skoraði tvívegis fyrir FH þegar liðið tók á móti Keflavík í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Bestu deildinni, á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í 18. umferð deildarinnar í kvöld.

Þetta var fyrsti sigur FH-inga í deildinni í rúmlega þrjá mánuði en síðasti sigurleikur liðsins kom gegn ÍBV á Kaplakrikavelli hinn 15. maí.

Leikurinn fór fjörlega af stað en strax á 6. mínútu fékk Kian Williams, sóknarmaður Keflavíkur, að líta beint rautt spjald fyrir brot á Ólafi Guðmundssyni, varnarmanni FH.

Williams fór með takkana ansi hátt í baráttunni sinni við FH-inginn með þeim afleiðingum að hann sparkaði í hausinn á honum og Pétur Guðmundsson, dómari leiksins gaf honum rauða spjaldið.

Það tók FH-inga smá tíma að nýta sér liðsmuninn en þeir komust yfir á 24. mínútu þegar Steven Lennon tók hornspyrnu frá vinstri. Boltinn fór af Joey Gibbs, framherja Keflavíkur, og í netið og staðan orðin 1:0-fyrir Hafnfirðinga.

Úlfar Ágúst Björnsson tvöfaldaði svo forystu FH átta mínútum síðar eftir frábæran sprett Olivers Heiðarssonar.

Oliver vann boltann á vallarhelmingi Keflavíkur og keyrði í átt að marki. Hann fór illa með tvo varnarmenn Keflavíkur áður en hann lagði boltann út í teiginn á Úlf sem fékk allan tímann í heiminum til þess að leggja boltann fyrir sig og koma honum í netið og staðan orðin 2:0.

Sindri Snær Magnússon fékk besta færi Keflvíkinga í fyrri hálfleik þegar hann slapp einn í gegn á 45. mínútu en Atli Gunnar Guðmundsson í marki Keflvíkinga kom vel út á móti honum og lokaði á hann.

Úlfur Ágúst bætti við öðru marki sínu og þriðja marki FH-inga á 56. mínútu eftir frábæran undirbúning Stevens Lennons.

Úlfur Ágúst fór snyrtilega framhjá Sindra Kristinni Ólafssyni í marki Keflvíkinga og lagði boltann í netið og staðan orðin 3:0.

FH-ingar sóttu nánast án afláts allan síðari hálfleikinn og fengu nokkrar mjög álitlegar sóknir til þess að bæta við mörkum en tókst ekki að nýta þær sem skildi og þar við sat.

FH er áfram í tíunda sæti deildarinnar með 14 stig, þremur stigum frá fallsæti, en Keflavík er í  því áttunda með 22 stig.

FH 3:0 Keflavík opna loka
90. mín. +4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert