Baráttan og viljinn skilaði Þór/KA þremur stigum

Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA í baráttunni á Akureyri í …
Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA í baráttunni á Akureyri í kvöld. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir sækir á hana. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór/KA vann gífurlega mikilvægan 1:0-sigur á Þrótti í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Akureyri í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og var kraftur í báðum liðum. Heimakonur stýrðu leiknum framan af og áttu gestirnir fá svör. Um miðjan hálfleik náðu þær þó meiri fótfestu og færðist því meira jafnvægi í leikinn. Þór/KA var þó hættulegra liðið allan fyrri hálfleikinn og var líklegra til að skora. Allt kom þó fyrir ekki og var staðan enn markalaus í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en eftir um 10 mínútur kom þó fyrsta markið. Þór/KA spilaði þá frábærlega sem endaði með því að Margrét Árnadóttir komst ein gegn Írisi í marki Þróttar. Margrét var óeigingjörn og gaf boltann til hliðar á Maríu Catharinu Ólafsdóttur Gros sem skoraði auðveldlega af stuttu færi. 

Markaskorarinn María Catharina Ólafsdóttir Gros sendir boltann í leiknum í …
Markaskorarinn María Catharina Ólafsdóttir Gros sendir boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Eftir markið var eins og heimakonur fylltust sjálfstrausti og voru þær mjög öruggar í öllum sínum aðgerðum. Þróttur var meira með boltann en engu að síður sköpuðu Þór/KA-konur hættulegri stöður. Mörkin í leiknum urðu ekki fleiri og sigldu því heimakonur frábærum 1:0-baráttusigri í höfn.

Þór/KA fer því upp í 13 stig eftir 14 leiki en Þróttur er áfram með 25 stig.

Þór/KA 1:0 Þróttur R. opna loka
90. mín. Þróttur R. fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert