Náðum tökum á leiknum strax eftir markið þeirra

Gyða Kristín Gunnarsdóttir skoraði tvö í kvöld.
Gyða Kristín Gunnarsdóttir skoraði tvö í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við byrjuðum hægt og fengum mark á okkur strax í byrjun leiks en svo unnum við okkur hægt og rólega inn í þetta og tókum yfir leikinn,“ sagði Gyða Kristín Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is í kvöld.

Gyða skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna í 7:1-risasigri á Aftureldingu í Bestu deildinni í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabænum í kvöld. Afturelding komst yfir snemma leiks, en eftir það voru yfirburðir Stjörnunnar miklir.

„Ég var róleg. Mér fannst við ná tökum á leiknum strax eftir markið þeirra. Hún var mjög sterk í markinu en við þurftum að finna leið framhjá henni. Um leið og það tókst fóru mörkin inn,“ sagði hún og hélt áfram:

„Við byrjuðum að finna svæðin fyrir aftan þær, því þær voru mjög þéttar. Við tengdum betur þegar við fundum opnanir fyrir aftan vörnina þeirra.“

Fyrra mark Gyðu kom úr víti, en skömmu áður varði Eva Ýr Helgadóttir frá Jasmín Erlu Ingadóttur á punktinum. Eftir það var komið að Gyðu, sem varð ekki á nein mistök. Hún skoraði svo fallegt annað mark í seinni hálfleik með skoti í stöng og inn utan teigs.

„Við vorum búnar að tala saman fyrir leikinn. Ég var slök, því mér finnst gaman að taka víti. Mér líður vel á punktinum. Í seinna markinu fann Betsy mig í teignum. Ég er oft að kalla á hana og hún fann mig loksins.“

Eftir sigurinn er Stjarnan í þriðja sæti með 27 stig, einu stigi á eftir Breiðabliki í öðru sæti og fimm á eftir Val, en efstu tvö liðin eiga leik til góða. „Við lítum upp töfluna. Það er einn leikur í einu en við lítum upp töfluna,“ sagði Gyða Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert