Stjarnan aftur í þriðja sæti eftir risasigur

Katrín Rún Kvaran og Gyða Kristín Gunnarsdóttir eigast við í …
Katrín Rún Kvaran og Gyða Kristín Gunnarsdóttir eigast við í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjarnan er komin upp í þriðja sæti Bestu deildar kvenna í fótbolta á nýjan leik eftir afar sannfærandi 7:1-heimasigur á Aftureldingu í Garðabænum í kvöld.

Afturelding byrjaði þó betur því Eyrún Vala Harðardóttir kom gestunum yfir strax á 5. mínútu. Eftir það tók Stjarnan hinsvegar öll völd á vellinum.

Heimakonur sköpuðu sér hvert færið á fætur öðru en Eva Ýr Helgadóttir varði nokkrum sinnum stórglæsilega í marki Aftureldingar. Besta varslan kom á 26. mínútu er hún varði víti frá Jasmín Erlu Ingadóttur.

Jöfnunarmarkið kom þó loks á 35. mínútu og þar var að verki Jasmín Erla. Hún slapp þá í gegn, Eva varði frá henni en Jasmin fékk boltann aftur og skoraði í nánast autt mark, 1:1.

Tæpum tíu mínútum síðar komst Stjarnan yfir þegar Atli Haukur Arnarsson, dómari leiksins, dæmdi ódýra vítaspyrnu á Veronicu Boix, sóknarmann Stjörnunnar. Í þetta skipti fór Gyða Kristín Gunnarsdóttir á punktinn og skoraði af öryggi.

Aðeins mínútu síðar var staðan orðin 3:1. Jasmín Erla slapp þá í gegn eftir sendingu frá Ingibjörgu Luciu Ragnarsdóttur og skoraði af öryggi. Var Stjarnan því tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Sá munur breyttist í þrjú mörk á 60. mínútu þegar Betsy Hassett skoraði glæsilegt mark. Sú ástralska sólaði þá nánast allt lið Aftureldingar og skoraði með góðu skoti í fjærstöngina. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Gyða Krist­ín sitt annað mark og fimmta mark Stjörnunnar með fallegu skoti í stöng og inn, utan teigs. 

Sjötta markið kom á 68. mínútu og það gerði varnarmaðurinn Málfríður Erna Sigurðardóttir með skoti af stuttu færi eftir horn. Jasmín Erla Ingadóttir fullkomnaði svo þrennu sína með sjöunda markinu á 85. mínútu með góðri afgreiðslu í teignum og þar við sat.  

Stjarnan 7:1 Afturelding opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert