Múrum fyrir markið og finnum svo færi

Björn Daníel Sverrisson í kröppum dansi.
Björn Daníel Sverrisson í kröppum dansi. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Okkar markmið var að sjá leikinn þróast eins og hann gerði, samt ekki í níutíu mínútur því ég reiknaði með hann myndi opnast á einhverjum tímapunkti en hann gerði það bara ekki,“ sagði Sigurvin Ólafsson annar af þjálfurum FH eftir markalaust jafntefli við KR þegar liðin mættust í Vesturbænum í dag og léku í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.

Við leyfðum KR-ingum að koma upp með boltann og reyndum svo að refsa þeim með skyndisóknum, voru alls ekki langt frá því að takast það í fyrri hálfleik en svo héldum við bara út í þeim seinni og undir lokin vorum við alveg líklegir til að stela sigrinum.

Gengi FH hefur verið slakt í sumar en þá var skipt um þjálfara og blásið til baráttufundar, sem hefur skilað hreinu marki og mikið af áhorfendum, eins og sýndi sig á pöllunum í dag. 

Við erum orðnir raunsæir og menn hafa áttað sig á stöðunni, hún er alvarleg og nú erum við bara í keppni til að safna eins mörgum stigum og hægt er á næstu vikum.  Þetta var eitt stig í þann poka.  Við þurfum líka að vera raunsæir eftir leikjum, við finnum tækifærið til að sækja og svo annað tækifæri til að múra fyrir markið en það hefur lekið mikið af mörkum inn hjá okkur í sumar svo það er kærkomið að halda hreinu annan leikinn í röð, sýna þá góða varnarvinnu sem liðsheild.

Ekki fallegast fótboltinn en héldum aftur hreinu

Björn Daníel Sverrisson lék á miðjunni fyrir FH og þurfti meira að sinna varnarvinnu.  „Mér fannst þetta hörkuleikur eins og yfirleitt þegar við mætum í Frostaskjólið, mikil barátta og mikið af seinni boltum.  Í mörgum af leikjum, sem ég hef spilað í Frostaskjólinu  hefur ekki alltaf verið fallegasti fótboltinn og hefðu bæði lið geta hrósað sigri en annað hefði náð að koma boltanum í markið,“  sagði Björn Daníel eftir leikinn, sáttur við hreint mark.

„Við verðum að líta jákvætt á þetta, ef miðað er við gengi okkar í sumar, höldum hreinu og fáum stig.  Við höfum fengið mikið af mörkum á okkur í sumar en héldum hreinu í síðasta leik.  Það er skýrt markmið hjá okkur og nú höfum við gert það tvo leiki í röð en svo þarf bara að slípa sóknarleikinn aðeins.  Það hefði verið gaman að koma inn einu marki enda alltaf skemmtilegast að vinna eitt-núll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert