„Þetta er bara eins og hnífur í hjartað“ 

Ívar Örn Árnason vinnur skallabolta gegn Erlingi Agnarssyni í leiknum …
Ívar Örn Árnason vinnur skallabolta gegn Erlingi Agnarssyni í leiknum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Það var ekki hátt risið á KA-mönnum í dag eftir að þeir höfðu tapað 3:2 fyrir Víkingum í Bestu-deild karla í fótbolta. Staðan í hálfleik var 1:1. KA-menn voru alltaf líklegri til að skora í seinni hálfleiknum og komust yfir um hann miðjan.

Þrátt fyrir merki um þreytu í liði Víkinga þá náðu þeir tveimur mörkum til viðbótar og kom sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Minntu endalok þessa leiks á fyrri leik liðanna í sumar þar sem Víkingar skoruðu í blálokin. 

Ívar Örn Árnason var fyrirliði KA í leiknum og var hann að vonum svekktur í leikslok og taldi hann að KA hefði hæglega getað komið í veg fyrir mörk Víkinga. 

„Þeir jafna leikinn í 2:2 úr föstu leikatriði og það er bara prinsipp hjá okkur að við fáum ekki svoleiðis mörk á okkur. Þetta kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það voru þó nokkrar mannabreytingar hjá okkur fyrir þennan leik og við þurftum líka að skipta út manni í fyrri hálfleik. Þetta hefur eflaust haft sín áhrif. Þegar ég hugsa svo um þetta síðasta mark þá er það bara alveg eins og í fyrri leiknum okkar gegn Víkingum.

Augnabliks einbeitingarleysi eða eitthvað slíkt í aðdraganda marksins og svo lak boltinn yfir línuna. Þetta var bara eins svekkjandi og hægt er að hafa það. Við eigum svo a.m.k. einn leik eftir gegn Víkingum á tímabilinu og þetta mun sko ekki koma fyrir aftur gegn þeim.

Ég á bara erfitt með að melta þetta þar sem við vorum töluvert betri en þeir í seinni hálfleiknum og náðum að komast yfir og þeir orðnir hálf kraftlausir eftir mikið leikjaálag síðustu vikurnar. Það kom að lokum niður á okkur að nýta ekki fleiri færi. Við náðum að valda usla í teignum hjá þeim. Þetta var bara leikur þar sem smáatriði hér og þar skiptu sköpum og þetta féll með þeim í dag.“ 

Það er athyglisvert sem þú segir að báðir leikir liðanna í deildinni hafa endað eins og Víkingur tekur sex stig úr þeim en þið ekkert. Þau hefðu allt eins getað verið tvö á lið.  

„Já í rauninni“ segir Ívar Örn og stynur þungt. „Þetta er afskaplega sárt. Þetta er bara eins og hnífur í hjartað. Þetta eru bara töpuð stig af okkar hálfu en það er nóg eftir og það eru margir mikilvægir leikir framundan og við ætlum að vera í Evrópubaráttunni áfram.“ 

Já en þið eruð að spila næst í undanúrslitum Mjólkurbikarsins gegn FH á fimmtudaginn. 

„Það verður flottur leikur sem við ætlum að leggja mikið púður í. KA var síðast í úrslitaleiknum árið 2004 og þá var ég lítill gutti í stúkunni. Ég man nánast eftir hverju augnabliki þann dag. Sem leikmaður þá langar mig að færa KA-mönnum, iðkendum og stuðningsfólki skemmtilegan dag þar sem menn geta hópast saman á Laugardalsvöllinn“ sagði Ívar Örn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert