Ég er ekki sáttur

Arnar Grétarsson, þjálfari KA.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er mjög ánægður fyrir hönd Nökkva og samgleðst honum innilega,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

Sóknarmaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson er í þann mund að ganga til liðs við belgiska B-deildarfélagið Beerschot. 

Nökkvi, sem er 23 ára gamall, er markahæsti leikmaður efstu deildar, Bestu deildarinnar, í sumar með 17 mörk í 20 leikjum en hann hefur verið algjör lykilmaður í liði Akureyringa á leiktíðinni.

„Ég er ekki sáttur að missa hann á þessum tímapunkti en þetta var ákvörðun sem var tekin af þeim sem stjórna og við þurfum að lifa með henni,“ sagði Arnar.

Nökkvi Þeyr Þórisson og Hallgrímur Mar Steingrímsson fagna marki í …
Nökkvi Þeyr Þórisson og Hallgrímur Mar Steingrímsson fagna marki í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hrikalega slæmt að missa hann

Nökkvi Þeyr hefur verið besti leikmaður Bestu deildarinnra og var eftirsóttur af fleiri liðum.

„Nökkvi er frábær strákur sem hefur lagt á sig gríðarlega mikla vinnu til þess að ná þeim árangri sem hann hefur náð í sumar. Ég gæti í raun ekki hrósað honum nægilega fyrir þá vinnu sem hann er búinn að leggja á sig og ég er mjög þakklátur og stoltur af okkar samstarfi.

Á sama tíma er hrikalega slæmt að missa hann á þessum tímapunkti en ég fékk að heyra af því í gær að hann væri að fara til Belgíu. Hann kvaddi okkur því eftir leikinn gegn Fram. Þetta er strákur sem hefði getað valið úr tilboðum eftir tímabilið em svona er fótboltinn bara.“

Brynjar Ingi Bjarnason í leik með KA á síðustu leiktíð.
Brynjar Ingi Bjarnason í leik með KA á síðustu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erum að gera eitthvað rétt

Brynjar Ingi Bjarnason gekk til liðs við Lecce á Ítalíu síðasta sumar eftir að hafa verið lykilmaður í varnarleik liðsins.

„Ef við horfum á þetta jákvæðum augum þá er Nökkvi annar leikmaðurinn sem KA selur út í atvinnumennsku á rúmlega ári. Við erum því að gera eitthvað rétt hérna þó það sé auðvitað alltaf slæmt að missa lykilmenn á miðju tímabili,“ bætti Arnar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert