Ellefu stiga forskot Blika eftir nauman sigur á Val

Dagur Dan Þórhallsson vinstri bakvörður Breiðabliks sækir en Valsmaðurinn Orri …
Dagur Dan Þórhallsson vinstri bakvörður Breiðabliks sækir en Valsmaðurinn Orri Hrafn Kjartansson verst. mbl.is/Eggert

Breiðablik styrkti  stöðu sína á toppi Bestu deildar karla í knattspyrnu enn frekar þegar liðið vann Val með minnsta mun, 1:0, í 20. umferðinni á Kópavogsvelli í kvöld. Blikar eru nú með 11 stiga forskot á KA í öðru sæti deildarinnar.

Í fyrri hálfleiknum réðu Blikar lögum og lofum.

Dagur Dan Þórhallsson og Andri Rafn Yeoman áttu hættuleg skot við vítateigslínu sem Frederik Schram í marki Vals varði bæði auk þess sem Höskuldur Gunnlaugsson þrumaði í varnarmann úr ákjósanlegri stöðu í vítateignum eftir þunga sókn.

Besta færi fyrri hálfleiksins fékk hins vegar Kristinn Steindórsson eftir tuttugu mínútna leik. Hann skrúfaði þá boltann hárfínt í átt að fjærhorninu rétt innan vítateigs eftir frábært spil en Frederik Schram varði glæsilega aftur fyrir.

Blikar fengu mikinn fjölda hálffæra til viðbótar auk þess sem síðasta sendingin klikkaði nokkrum sinnum þegar heimamenn voru komnir í álitlega stöðu í grennd við vítateig Vals.

Undir blálok fyrri hálfleiks náði Sigurður Egill Lárusson loks fyrsta skoti Vals að marki í leiknum. Fast skot hans eftir hornspyrnu Jesper Juelsgård með jörðinni virtist stefna upp í nærhornið en fór þess í stað í varnarmann.

Markalaust var því í leikhléi.

Meira jafnræði var með liðunum í byrjun síðari hálfleiks þar sem bæði fengu prýðisfæri.

Eftir tæplega klukkutíma leik var Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, heppinn að fá ekki sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hann kom of seint í tæklingu á Andra Rafni.

Dómari leiksins, Ívar Orri Kristjánsson, ákvað þó ekki að gefa Hauki Páli annað gult spjald. Í snarhasti tóku Valsmenn fyrirliðann þá af velli.

Stuttu síðar, á 63. mínútu, brutu Blikar loks ísinn. Jason Daði Svanþórsson átti þá frábæra fyrirgjöf með jörðinni yfir á fjærstöngina þar sem Ísak Snær Þorvaldsson var mættur og kom boltanum í netið af stuttu og nokkuð þröngu færi. Frederik var í boltanum en tókst aðeins að verja hann í netið.

Það sem eftir lifði leiks voru Blikar við stjórn þó þeir hafi ekki skapað nándar nærri jafn mörg færi og í fyrri hálfleiknum.

Kristinn slapp að vísu í gegn þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka eftir laglegt spil en honum tókst ekki að athafna sig nægilega vel og skotið af vítateigslínunni fór fram hjá markinu.

Skömmu síðar reyndi Birkir Heimisson skot af mjög löngu færi eftir misheppnaða hreinsun Antons Ara Einarssonar í marki Breiðabliks en það fór talsvert langt framhjá opnu markinu.

Blikar sigldu að lokum sterkum eins marks sigri í höfn og slitu sig þannig enn frekar frá KA og Víkingi úr Reykjavík í sætunum tveimur fyrir neðan.

Valur er áfram í fjórða sæti Bestu deildarinnar, nú 16 stigum á eftir toppliði Breiðabliks.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Breiðablik 1:0 Valur opna loka
90. mín. Ágúst Eðvald Hlynsson (Valur) á skot sem er varið Skotið fyrir utan teig er ekki nógu kraftmikið og Anton Ari ver nokkuð auðveldlega.
mbl.is
Loka