„Það verður einhver að taka þetta met“

Ísak Snær Þorvaldsson í baráttu við Birki Má Sævarsson í …
Ísak Snær Þorvaldsson í baráttu við Birki Má Sævarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði sigurmark Breiðabliks í 1:0-sigrinum á Val í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld og var að vonum ánægður í leikslok.

„Þetta var náttúrlega geggjuð frammistaða hjá okkar leikmönnum, sem lið. Mér fannst þetta þannig séð aldrei vera í hættu. Við vorum ekki að gefa þeim nein færi og vorum að berjast eins og algjörar skepnur.

Það var barátta í öllum leikmönnum og þetta þarf að vera svona í öllum leikjum. Þetta var geggjuð frammistaða, þó að þetta hafi bara verið 1:0 þá fannst mér þetta ekki naumt,“ sagði Ísak Snær í samtali við mbl.is.

Mark hans kom í síðari hálfleik sem var öllu jafnari en sá fyrri, þar sem Blikar keyrðu yfir Valsmenn en tókst hins vegar ekki að skora. Hvað vantaði upp á hjá liðinu í fyrri hálfleik?

„Það voru bara ekki nógu mikil gæði á síðasta þriðjung. Þetta er þolinmæðisvinna og við erum þolinmóðir. Þó að margir í stúkunni séu kannski stressaðir yfir því að við séum ekki að fara að skora þá höfum við sem erum að spila alltaf trú á því.“

Tími til kominn að slá markametið

Í dag bárust fréttir af því að Nökkvi Þeyr Þórisson, sóknarmaður KA og markahæsti leikmaður deildarinnar með 17 mörk, sé á förum til Beerschot í belgísku B-deildinni.

Ísak Snær er næstmarkahæstur með 13 mörk og stefnir einfaldlega á markakóngstitilinn.

„Já, það þarf einhver að gera það fyrst hann er að fara. Það er leiðinlegt að hann sé að fara. Hann er góður leikmaður og ég vona að hann geri vel úti og óska honum góðs gengis,“ sagði hann.

Ísak Snær vill gjarna gera gott betur og slá markametið í efstu deild, sem er 19 mörk og hefur verið um langt skeið.

„Það verður einhver að taka þetta met, ég veit ekki hversu lengi þetta met er búið að standa. Það er kominn tími til að einhver taki það. En svo lengi sem við erum að vinna er ég sáttur.“

Einungis eitt markmið

Breiðablik er nú með 11 stiga forskot á toppi Bestu deildarinnar. Tveir leikir eru eftir af hefðbundinni keppni í deildinni áður en hún skiptist í tvennt, þar sem fimm leikir til viðbótar verða leiknir.

Hann sagði Blika áfjáða í að halda sama dampi það sem eftir er af tímabilinu. „Þegar baráttan er svona er ég bara mjög ánægður með liðið og svo lengi sem frammistaðan er góð þá er maður sáttur.

Það er bara eitt markmið hjá okkur og það er að fara alla leið. Þetta mun verða erfitt en ef við berjumst svona í hverjum einasta leik þá vonandi fer þetta vel hjá okkur,“ sagði Ísak Snær að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert