Víkingar fjórða markahæsta lið sögunnar

Logi Tómasson fagnar einu marka Víkings í 9:0 sigrinum á …
Logi Tómasson fagnar einu marka Víkings í 9:0 sigrinum á Leikni sem kom liðinu í 50 marka hópinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að hafa skorað tólf mörk í tveimur síðustu leikjum sínum í Bestu deild karla eru Víkingar orðnir fjórða markahæsta lið sögunnar í efstu deild karla og hafa nú þegar bætt eigið félagsmet í deildinni um heil átján mörk.

Þegar Víkingar urðu Íslandsmeistarar á síðasta ári skoruðu þeir 38 mörk sem var þá félagsmet hjá þeim í efstu deild. Það slógu þeir strax í sínum 17. leik í ár og eru eftir sigrana á Leikni og Keflavík, 9:0 og 3:0, komnir með hvorki fleiri né færri en 56 mörk í deildinni í ár, í 21 leik.

Aðeins þrjú lið í sögu deildarinnar hafa gert betur. Skagamenn sem skoruðu 62 mörk í 18 leikjum árið 1993 og síðan skoruðu KR og FH 58 og 57 mörk árið 2009.

Víkingar fóru í dag fram úr Breiðabliki sem skoraði 55 mörk í deildinni á síðasta ári en varð þó að sætta sig við annað sætið.

Blikar eru komnir yfir 50 mörkin annað árið í röð, hafa skorað 52 mörk, og eru annað liðið í sögunni, á eftir FH 2008 og 2009, sem nær að skora 50 mörk  tvö tímabil í röð.

Þetta eru 50 marka liðin í sögu efstu deildar karla:

62 - ÍA 1993 (18 leikir)
58 - KR 2009 (22 leikir)
57 - FH 2009 (22 leikir)
56 - Víkingur R. 2022 (21 leikur)
55 - Breiðablik 2021 (22 leikir)
54 - Keflavík 2008 (22 leikir)
53 - FH 2005 (18 leikir)
52 - Breiðablik 2022 (21 leikur)
51 - Stjarnan 2011 (22 leikir)
51 - FH 2012 (22 leikir)
50 - ÍA 1995 (18 leikir)
50 - Valur 2020 (18 leikir)
50 - FH 2008 (22 leikir)
50 - KR 2013 (22 leikir)
50 - Valur 2018 (22 leikir)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert