Stöngin út í sumar

Karitas Tómasdóttir reynir sendingu í leiknum í kvöld.
Karitas Tómasdóttir reynir sendingu í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ógeðslega svekkt,“ sagði Karitas Tómasdóttir, leikmaður Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Val í 15. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst koma aukakraftur í okkur eftir að við komumst yfir svona jafna þær og þá dettur þetta aðeins niður hjá okkur. Við bökkuðum of mikið frá þeim og gáfum þeim of mikinn tíma á boltanum líka. Það var algjör óþarfi því við hleyptum þeim þannig inn í leikinn.

Bæði lið fengu færi til þess að skora og þetta hefði klárlega getað dottið hvoru megin sem var. Það hefði verið erfitt að fara inn í þessa síðustu leiki, 8 stigum á eftir þeim, þannig að stig í kvöld er klárlega betra en ekkert,“ sagði Karitas.

Blikar eru nú sex stigum á eftir Íslandsmeisturum Vals þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu.

„Við förum inn í hvern einasta leik til þess að vinna hann og það breytist ekkert í lokaumferðunum. Við höfum verið í vandræðum með að stilla upp sama byrjunarliðinu í allt sumar, meðal annars vegna meiðsla, en þetta hefur aðeins verið stöngin út hjá okkur í sumar því miður,“ sagði Karitas.

Það var hart tekist á á Hlíðarenda.
Það var hart tekist á á Hlíðarenda. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is