Leiknir úr fallsæti eftir endurkomusigur

Skagamaðurinn Árni Salvar Heimisson og Birgir Baldvinsson úr Leikni á …
Skagamaðurinn Árni Salvar Heimisson og Birgir Baldvinsson úr Leikni á Akranesvelli í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

ÍA fékk Leikni úr Reykjavík í heimsókn í 22. umferð Bestu deildar karla í dag. Þessi umferð var sú síðasta áður en deildinni verður skipt upp í efri og neðri hluta.

Fyrir leikinn voru þetta liðin í neðstu tveimur sætunum, ÍA í því neðsta með 15 stig en Leiknir í 11. sæti með 17. Bæði lið voru einnig að treysta á það að Stjarnan myndi vinna FH til að bilið í þá myndi ekki stækka.

Fyrri hálfleikurinn byrjaði afar rólega og virtist hvorugt liðið þora að taka neina sénsa. Leiknir voru þó líklegri einfaldlega vegna fjölda hornspyrna sem þeir fengu, en þeir fengu 10 hornspyrnur aðeins í fyrri hálfleik en nýttu sér það ekki. á 40. mínútu fengu ÍA þó færi þar sem Benedikt Warén átti hörku skot sem að Viktor Freyr Sigurðsson varði og eftir mikið klafs inn á teignum datt boltinn fyrir Eyþór Aron Wöhler sem að potaði boltanum inn fyrir línuna og kom ÍA í 1-0. Eftir markið sóttu Leiknir hart á ÍA en náðu ekki að nýta færi og voru hálfleikstölur 1-0 fyrir ÍA.

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri, hvorugt liðið þorði að sækja. En á 55. mínútu skoruðu Tobias Stagaard sjálfsmark fyrir ÍA og staðan þá orðin 1-1. Nákvæmlega ekkert gerðist í leiknum þangað til á 88. mínútu þegar að Leiknir fengu hornspyrnu. Boltinn kom inn á teiginn og endaði í Viktori Jónssyni og fór þaðan í netið, staðan orðin 2:1 fyrir Leikni og tvö sjálfsmörk búin að koma Leikni yfir. Þannig fóru leikar og Leiknir fer af Akranesi með 3 stigin öll.

Leiknir fer þá upp í 10. sæti og FH-ingar eru komnir í fallsæti. Staðan er orðin afar svört fyrir Skagamenn, en þeir þurfa á öðru kraftaverki að halda líkt og þeir fengu síðasta sumar.

ÍA 1:2 Leiknir R. opna loka
90. mín. Tvöföld skipting hjá Leikni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert