Arnar um Gylfa Þór: Nei, það veit ég ekki

Gylfi Þór Sigurðsson er án félags eftir að samningur hans …
Gylfi Þór Sigurðsson er án félags eftir að samningur hans við Everton rann út í sumar. AFP

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var spurður út stöðuna á Gylfa Þór Sigurðssyni á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum á föstudaginn síðasta.

Gylfi Þór, sem er 33 ára gamall, er án félags eftir að samningur hans við enska úrvalsdeldarfélagið Everton rann út í sumar.

Miðjumaðurinn var handtekinn í júlí á síðasta ári, grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi en lögreglan í Manchester staðfesti í samtali við RÚV á dögunum að málið væri en til skoðunar hjá embættinu.

Aron Enar Gunnarsson og Alfreð Finnbogason eru báðir í íslenska hópnum eftir langa fjarveru en Arnar Þór var spurður hvort hann vissi hver staðan á Gylfa Þór væri og hans fótboltaframtíð.

„Nei, það veit ég ekki,“ sagði Arnar Þór stuttur í máli.

„Ég hef ekkert heyrt um stöðuna á Gylfa og hvort það sé fótbolti framundan hjá honum,“ bætti Arnar Þór við.

mbl.is