„Ef það á að bola mér út þá er það bara þannig“

Kjartan Henry Finnbogason hefur fengið fá tækifæri með KR undanfarnar …
Kjartan Henry Finnbogason hefur fengið fá tækifæri með KR undanfarnar vikur. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Henry Finnbogason var ekki í leikmannahóp KR um helgina þegar liðið gerði 2:2-jafntefli gegn Víkingi úr Reykjavík í 22. umferð Bestu deildarinnar á Víkingsvelli í Fossvogi.

Kjartan Henry, sem er 36 ára gamall, hefur fengið fá tækifæri með KR undanfarnar vikur en hann hefur skorað fjögur mörk í 16 leikjum með KR í Bestu deildinni á tímabilinu.

KR-ingum hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel í deildinni það sem af er tímabili en liðið er með 31 stig í fimmta sætinu.

„Ég er auðvitað bara leiður og hissa, þetta er komið hringinn,“ segir Kjartan Henry í samtali við Fréttablaðið.

Ég er búinn að byrja sjö leiki í sumar og skora fjögur mörk, síðan hefur bara orðið algjör viðsnúningur á þessu öllu og ég hef engar skýringar á því. Það hefur enginn talað við mig, ekki sagt neitt við mig.

Hvorki þjálfari né aðrir, þeir geta alveg sagt að ég eigi ekki skilið neina sérstaka skýringu á því frekar en einhver annar. Þeir mega nálgast hlutina á þann hátt,“ sagði Kjartan Henry.

Framherjinn er samningsbundinn í Vesturbænum út keppnistímabilið 2023.

„Það er búið að blaðra um ákvæðið, ég ætla ekki að tala um það hvernig samningurinn minn er uppsettur. Ef það á að bola mér út, þá er það bara þannig. Við sjáum hvað gerist eftir tímabilið, það gagnast ekki að rekja þetta í fjölmiðlum. Ég vil að KR gangi vel,“ sagði Kjartan Henry enn fremur í samtali við Fréttablaðið.

mbl.is
Loka