„Ég veit aldrei hvað ég geri maður“

Ásdís Karen Halldórsdóttir í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld.
Ásdís Karen Halldórsdóttir í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst við voru og varkárar í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var miklu betri,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, í samtali við mbl.is eftir 0:1-tap gegn Slavia Prag í fyrri leik liðanna í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Við færðum okkur miklu framar á völlinn í síðari hálfleik sem var eitthvað sem við lögðum upp með að gera strax frá byrjun. Við fengum fjögur mjög góð tækifæri til þess að skora en því miður fór boltinn ekki inn.

Við vorum að mæta góðu liði og það er erfitt að spila í Meistaradeildinni. Okkur tókst að gera gott tékkneskt lið að ekkert svo góðu liði í síðari hálfleik með því að yfirspila þær en það er vissulega svekkjandi að fá ekkert út úr leiknum,“ sagði Pétur.

Fyrirliðinn Elísa Viðarsdóttir í kröppum dansi.
Fyrirliðinn Elísa Viðarsdóttir í kröppum dansi. mbl.is/Árni Sæberg

Erfiðara í Tékklandi

Síðari leikur liðanna fer fram í Prag í Tékklandi eftir viku og þurfa Valskonur á sigri að halda til þess að eiga möguleika á því að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Þetta verður vissulega erfiðara úti í Tékklandi en þetta er bara eitt mark og við förum í þennan seinni hálfleik fullar sjálfstrausts. Mér fannst við sýna það í síðari hálfleik að þetta er lið sem við getum unnið og getum skorað gegn og það er jákvætt.“

Á þjálfarinn von á því að gera einhverjar breytingar fyrir seinni leikinn?

„Örugglega. Ég veit aldrei hvað ég geri maður, ég veit það ekki einu sinni sjálfur,“ bætti Pétur við í léttum tón í samtali við mbl.is.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir reynir skot í leiknum í kvöld.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir reynir skot í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert