Í fimm leikja bann fyrir kynþáttaníð

Knattspyrnumaðurinn Ivan Jelic, markvörður Reynis úr Sandgerði, var í gær úrskurðaður í fimm leikja bann þegar aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom saman á fundi. Var Jelic úrskurðaður í bannið vegna rasískra ummæla sem hann viðhafði í garð Júlio Fernandes, leikmanns KF, í leik liðanna í 2. deild karla á dögunum.

Dómari varð var við ummælin og gaf Króatanum Jelic beint rautt spjald vegna þeirra. Hann lét ummælin falla eftir að Brasilíumaðurinn Fernandes, sem er dökkur á hörund, hafði skorað framhjá honum skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik bætti Fernandes við þremur mörkum og skoraði því fjögur mörk í 8:3-sigri.

Í skýrslu dómara sagði um atvikið:

„Leikmaður nr. 7 hjá KF skorar. Leikmaður nr. 32 hjá Reyni bregst illa við því. Dómari fer til leikmanns 32. og spyr hann hvert sé vandamálið. Leikmaðurinn svarar því ekki, en þess í stað hrópar hann rasísk ummæli um leikmann nr.7. („Fucking litle monkey“)“

Í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar sagði meðal annars um ástæðu þess að ákveðið hafi verið að úrskurða Jelic í fimm leikja bann:

„Það er mat aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, m.t.t. þeirra gagna sem aflað hefur verið í málinu, að með hinum umdeildu ummælum hafi Ivan Jelic gerst brotlegur við ákvæði 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Hafi ummæli leikmannsins, „Fucking litle monkey“ falið í sér fyrirlitningu og niðurlægingu í orði með vísan til þjóðernisuppruna leikmanns andstæðinga.“

Jelic bað Fernandes afsökunar eftir leik

Stjórn knattspyrnudeildar Reynis sendi KSÍ greinargerð vegna málsins. Þar sagði:

„Í leik Reynis gegn KF á Ólafsfjarðarvelli þann 10. september fékk leikmaður Reynis, Ivan Jelic, rautt spjald fyrir ummæli sín um leikmann KF. Um leið og stjórn Knattspyrnudeildar Reynis fékk veður af þessu máli var leikmaðurinn settur í leyfi á meðan málið var skoðað. Samtal átti sér stað milli stjórnar, umrædds leikmanns, þjálfara félagsins og forsvarsmanns KF. Í samtali okkar við leikmanninn þvertekur hann fyrir að rasísk meining hafi legið að baki þessara orða og vill meina að þetta hafi verið einkar óheppileg þýðing af króatísku blóti. Hann og umræddur leikmaður KF ræddu saman á fljótlega eftir atvikið og bað Ivan hann afsökunar á þessum ummælum. Leikmaður KF tók vel í þá afsökunarbeiðni.

Umræddur leikmaður hefur æft og leikið með félaginu frá því síðastliðið vor. Við höfum verið einstaklega heppin á þessu tímabili að hafa fjölbreyttan hóp leikmanna úr mörgum menningarheimum. Í samtali okkar við nokkra núverandi leikmenn þá höfðu þeir ekki tekið eftir rasískum ummælum frá viðkomandi leikmanni og töldu mögulegt að léleg enskukunnátta leikmannsins væri ástæða fyrir þessum ummælum. Stjórn Knattspyrnudeildar Reynis vill árétta að hún fordæmir alla kynþáttafordóma. Félagið er í samfélagi þar sem stór hluti íbúa er innflytjendur og sömuleiðis margir iðkendur félagsins í yngri flokkum sem og meistaraflokki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert