KR-ingurinn frá keppni í allt að ár

Hallur Hansson í leik með KR gegn Stjörnunni fyrr á …
Hallur Hansson í leik með KR gegn Stjörnunni fyrr á tímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hallur Hansson, leikmaður karlaliðs KR í knattspyrnu og fyrirliði færeyska landsliðsins, meiddist alvarlega á hné í leik liðsins gegn Víkingi í lokaumferð Bestu deildarinnar um síðustu helgi.

Frá þessu er greint á heimasíðu Knattspyrnusambands Færeyja.

Þar segir að meiðslin séu það alvarleg að Hallur verði frá í níu til tólf mánuði

„Þetta voru allra verstu fréttir sem ég gat fengið. En svona er fótboltinn. Þetta snýst um að horfa fram veginn og koma sterkari til baka þegar þar að kemur,“ sagði hann í samtali við heimasíðu knattspyrnusambandsins.

Hallur er þrítugur miðjumaður sem hefur leikið 19 leiki í Bestu deildinni fyrir KR á tímabilinu og skorað í þeim eitt mark. Hann skoraði þá tvö mörk í þremur bikarleikjum.

Landsliðsfyrirliðinn á að baki 73 A-landsleiki fyrir Færeyjar og hefur skorað fimm mörk í þeim.

Samningur Halls við KR gildir út næsta tímabil.

mbl.is
Loka