Einn besti landsliðsmaður sögunnar

Ísak Bergmann Jóhannesson skorar sigurmarkið í kvöld.
Ísak Bergmann Jóhannesson skorar sigurmarkið í kvöld. Ljósmynd/Andreas Karner

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði sigurmark Íslands í 1:0-sigrinum á Venesúela í vináttuleik í fótbolta í Austurríki í kvöld. Markið kom úr vítaspyrnu, nokkrum mínútum fyrir leikslok.

„Alltaf gaman að hjálpa liðinu með því að skora, leggja upp eða hlaupa fyrir liðið. Það er alltaf gaman að vinna leiki,“ sagði Ísak í samtali við Viaplay eftir leik og hélt áfram: „Ég var mjög klár í það að koma inn og hjálpa liðinu. Það er gott að geta komið inn og breytt leiknum á einhvern hátt.“

Ísak segir mikilvægt að vinna í kvöld, þar sem Ísland hefur ekki unnið marga landsleiki upp á síðkastið. „Við höfum ekki verið að vinna marga leiki undanfarið og þótt þetta sé æfingaleikur, þá vildum við vinna þennan leik. Það var smá harka í þessu í lokin, en það var bara gaman.“

Ísak hrósaði Aroni Einari Gunnarssyni, landsliðsfyrirliðanum, í hástert en hann kom sterkur inn í miðja vörnina í kvöld.

„Aron var geggjaður í dag, og maður leiksins að mínu mati. Hann er einn besti landsliðsmaður sögunnar. Hann er ótrúlega mikilvægur fyrir okkur á hótelinu, æfingu og í leikjum,“ sagði hann.

mbl.is