Gaman að spila aftur fyrir Íslands hönd

Aron Einar Gunnarsson lék sinn fyrsta landsleik í rúmt ár …
Aron Einar Gunnarsson lék sinn fyrsta landsleik í rúmt ár í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Virkilega ánægjulegt,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, í samtali við Viaplay um endurkomu sína í íslenska landsliðið í fótbolta en hann lék allan leikinn í 1:0-sigri á Venesúela í æfingaleik í Austurríki í dag.

„Þótt þetta var vináttuleikur vorum við að reyna ýmislegt sem við vildum nýta í framtíðinni. Vinnusemin var mikil og við eyddum mikilli orku að stoppa þá og mér fannst þeir aldrei ógna okkur eða fá einhver færi. Við getum við mjög sáttir við það. Við fengum ekki mark á okkur og færin voru okkar. Við getum tekið margt jákvætt úr þessum leik og getum byggt á því,“ bætti hann við.

Aron lék sem miðvörður í dag og tókst mjög vel til á milli þeirra Guðlaugs Victors Pálssonar og Harðar Björgvins Magnússonar.

„Ég leysi þá stöðu sem mér er sagt að spila. Ég er búinn að spila þessa stöðu í Katar síðasta árið. Ég er að læra inn á hana og það er margt sem ég á eftir ólært. Það er fínt að hafa Gulla að djöflast hægra megin við mig og Hörður var flottur í þessum leik. Rúnar var líka talandi bakvið okkur. Við vorum með fínt skipulag á þessu og þeir voru ekki að ógna okkur.

„Það eru margir leiðtogar í þessu liði. Þótt það heyrist ekki mikið í þessum ungu, þá hafa þeir efni á því að tala líka og hjálpa liðinu. Ég geri mitt starf eins vel og ég get og að spila aftur fyrir Íslands hönd var gaman. Ég var fullur tilhlökkunar fyrir þennan leik,“ sagði Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert