Ísak hetja Íslands gegn Venesúela

Guðlaugur Victor Pálsson og Yeferson Soteldo eigast við í dag.
Guðlaugur Victor Pálsson og Yeferson Soteldo eigast við í dag. Ljósmynd/@SeleVinotinto

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta vann sinn annan sigur á árinu er liðið lagði Venesúela af velli, 1:0, í vináttuleik í Austurríki í dag.

Afar lítið var um færi í fyrri hálfleik og var leikurinn frekar lokaður. Íslenska liðið varðist vel og pressa liðsins skilaði því að Venesúelamenn komust lítið inn í leikinn. Aron Einar Gunnarsson kom inn í vörn Íslands og færðist meira öryggi yfir liðið með hans innkomu.

Staðan í leikhléi var 0:0, en íslenska liðið var sterkara í seinni hálfleik og skapaði sér nokkur færi. Mikael Egill Ellertsson fékk þrjú fín færi en setti boltann yfir í öll skiptin.

Þegar flest benti til þess að liðin myndu gera markalaust jafntefli náði Þórir Jóhann Helgason í vítaspyrnu á 87. mínútu. Ísak Bergmann Jóhannesson fór á punktinn, skoraði af öryggi og tryggði íslenska liðinu eins marks sigur.

Næsta verkefni hjá Íslandi er útileikur gegn Albaníu í Þjóðadeildinni næstkomandi þriðjudag.

Venesúela 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert