Spurning hversu lengi maður á að vera þolinmóður

Róbert Orri Þorkelsson fyrir æfingu með U21-árs landsliðinu.
Róbert Orri Þorkelsson fyrir æfingu með U21-árs landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Róbert Orri Þorkelsson, varnarmaður íslenska U21-árs landsliðsins og kanadíska liðsins Montréal sem leikur í bandarísku MLS-deildinni, býst við erfiðri viðureign gegn Tékklandi í umspili um laust sæti á EM 2023 í Georgíu og Rúmeníu.

„Þetta leggst virkilega vel í mig. Það er hrikalega gaman að koma heim og spila landsleik fyrir framan íslenska áhorfendur. Ég bara get ekki beðið,“ sagði Róbert Orri í samtali við mbl.is fyrir æfingu U21-árs liðsins á Víkingsvelli í morgun.

Hann sagði undirbúning fyrir fyrri leik liðanna, sem fer fram klukkan 16 á Víkingsvelli á morgun, hafa verið með besta móti.

„Mjög vel. Davíð [Snorri Jónasson þjálfari] er búinn að setja hlutina vel upp fyrir okkur og við erum búnir að undirbúa okkur vel. Svo er síðasti dagurinn í dag í undirbúningi og svo erum við klárir á morgun.“

Róbert Orri í leik með U21-árs landsliðinu í sumar.
Róbert Orri í leik með U21-árs landsliðinu í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður út í andstæðinga morgundagsins og þriðjudagsins sagði Róbert Orri:

„Þeir eru virkilega góðir. Þeir héldu sjö sinnum hreinu í riðlinum sínum sem sýnir að þeir eru virkilega agaðir og með gott lið.

Þeir eru sterkir fram á við í skyndisóknum, fara með bakverðina hátt. Þetta er bara virkilega gott lið og við verðum að vera vel klárir í það.“

Öðruvísi í Covid-tímabilinu

Hann er einn af átta leikmönnum í núverandi leikmannahópi íslenska U21-árs landsliðsins sem var í lokahópnum á EM 2021. Róbert Orri sagði það hvetja leikmenn sérstaklega til dáða.

„Já algjörlega. Síðasta EM var mjög skemmtilegt og ég vona svo innilega að við getum gert það aftur. Það væri ekki slæmt að ná að fara á EM tvisvar í röð. Það er algjörlega markmiðið og vonandi náum við því.

Það breytir öllu að næsta EM verður með áhorfendur. Það verður miklu meiri svona fílingur, eins og þú sért á EM. Það var aðeins öðruvísi í Covid-tímabilinu.“

Þetta er þolinmæðisverk

Róbert Orri skipti yfir til Montréal síðasta sumar en lék ekkert með liðinu á síðasta ári, að hluta til vegna meiðsla. Á yfirstandandi tímabili hefur hann komið við sögu í tíu deildarleikjum en hefur ekki byrjað neinn þeirra.

Róbert Orri hefur komið við sögu í fjórum leikjum til viðbótar þar sem hann hefur byrjað tvo leiki í kanadísku bikarkeppninni og byrjað einn leik af þeim tveimur sem hann hefur leikið í Meistaradeild Norður- og Mið-Ameríku.

Róbert Orri í baráttu við leikmenn franska landsliðsins á EM …
Róbert Orri í baráttu við leikmenn franska landsliðsins á EM U21-árs liða á síðasta ári. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hann viðurkennir fúslega að hann myndi vilja fá fleiri tækifæri. „Ég myndi klárlega segja að þetta sé þolinmæðisverk en hversu lengi maður á að vera þolinmóður, það er spurningin.

Auðvitað hefði maður viljað spila meira og allt það en það eru núna einhverjir í liðinu að fara á HM með Kanada, meðal annars leikmenn sem ég er að keppast við um stöðu.

Það er stór gluggi fyrir þá þannig að við sjáum hvað gerist eftir það. Það gæti vel verið að ef þeir standa sig vel þar fái þeir eitthvað gigg annars staðar,“ sagði Róbert Orri og bætti að lokum við að hann muni bíða og sjá hvernig staðan komi til með að þróast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert