Sveinn og Ólafur bætast í hópinn – Kristall og Finnur ekki með

Sveinn Margeir Hauksson í leik með KA á dögunum.
Sveinn Margeir Hauksson í leik með KA á dögunum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnumaðurinn Sveinn Margeir Hauksson, leikmaður KA, var í gær valinn í U21-árs landslið Íslands. Í morgun var svo tilkynnt að Ólafur Kristófer Helgason, markvörður Fylkis, hafi einnig verið valinn.

Kristall Máni Ingason og Finnur Tómas Pálmason hafa þá neyðst til að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.

Íslenska U21-árs landsliðið undirbýr sig um þessar mundir fyrir umspilsleiki gegn Tékklandi fyrir lokakeppni EM 2023.

Sveinn Margeir, sem er tvítugur sóknarsinnaður miðjumaður og kantmaður, hefur leikið afar vel með KA á tímabilinu.

Í 21 deildarleik í sumar hefur hann skorað þrjú mörk og lagt upp önnur sjö. Alls á hann 51 deildarleik að baki fyrir KA en hann hóf feril sinn hjá Dalvík/Reyni í neðri deildunum.

Ólafur Kristófer er 19 ára gamall og lék einkar vel í marki Fylkis þegar liðið vann næstefstu deild, Lengjudeildina, með yfirburðum og tryggði sér þannig sæti í Bestu deildinni á næsta ári.

Hann lék alla 22 leiki Fylkis í deildinni í sumar. Ólafur Kristófer á auk þess sex leiki að baki í efstu deild með uppeldisfélaginu á síðasta ári og 18 leiki í 3. deild með venslafélaginu Elliða.

Bæði Sveinn Margeir og Ólafur Kristófer eru nýliðar í U21-árs landsliðinu.

Fyrri leikur Íslands og Tékklands í umspilinu fer fram á Víkingsvelli á morgun og sá síðari í Ceské Budojovice í Tékklandi næstkomandi þriðjudag. Báðir leikirnir hefjast klukkan 16 að íslenskum tíma.

mbl.is