Arnar hættur og Hallgrímur tekur við

Arnar Grétarsson og Hallgrímur Jónasson á hliðarlínunni.
Arnar Grétarsson og Hallgrímur Jónasson á hliðarlínunni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hallgrímur Jónasson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu til næstu þriggja ára og tekur hann við af Arnari Grétarssyni sem er hættur störfum hjá Akureyrarfélaginu.

KA tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í dag en liðið er í þriðja sæti Bestu deildar karla fyrir lokasprett Íslandsmótsins og í dauðafæri til að vinna sér inn Evrópusæti.

„Við erum mjög ánægð með að hafa gengið frá þessari ráðningu", segir Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar KA á heimasíðu félagsins en Hallgrímur tekur formlega við liðinu nú um mánaðamótin.

„Það hefur verið mikill stígandi í allri þjálfun og stýringu liðsins, sem endurspeglast hefur í bættum leik liðins á undangengnum árum. Við teljum Hadda vera okkar besta val í að halda áfram á sömu braut og byggja á þeim grunni sem hér hefur verið lagður. Hann gjörþekkir alla innviði félagsins og er auk þess mikil fyrirmynd á meðal iðkenda okkar. Við hlökkum til samstarfsins með Hadda en þökkum um leið Arnari Grétarssyni fyrir mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. Við sem félag erum gríðarlega þakklát fyrir starf Arnars og óskum honum alls hins besta í framtíðinni," segir Hjörvar.

Arnar tók við liði KA á miðju sumri 2020 og undir hans stjórn hefur liðið náð sínum besta árangri frá því það varð Íslandsmeistari árið 1989. KA endaði í fjórða  sæti á síðasta tímabili og er nánast öruggt með að enda í einu af þremur efstu sætunum í ár.

Hallgrímur kom til KA frá Lyngby í Danmörku í ársbyrjun 2018 og hefur leikið með liðinu jafnframt því að stjórna afreksþjálfun, þjálfa yngri flokka, og vera aðstoðarmaður Arnars frá sumrinu 2020. Hann hefur lítið leikið með liðinu frá því hann slasaðist illa þá um sumarið en hefur komið við sögu í tveimur leikjum KA í Bestu deildinni í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert