Ísland fer marki undir til Tékklands

Íslenska U21 árs landslið karla í fótbolta á erfitt verk fyrir höndum í Tékklandi næstkomandi þriðjudag eftir 1:2-tap í fyrri leik sínum við Tékkland í umspili um sæti á lokamóti Evrópumótsins í Georgíu og Rúmeníu á næsta ári.

Tékkar fengu fyrsta góða færi leiksins á sjöttu mínútu en Krystof Danek skaut rétt yfir úr góðri stöðu í teignum eftir sókn upp vinstri kantinn. Næstu mínútur gerðist fátt markvert og fundu bæði lið fáar glufur á vörn andstæðinganna.

Það breyttist á 26. mínútu, því þá fékk íslenska liðið vítaspyrnu. Sævar Atli Magnússon vann þá boltann á hættulegum stað og sendi boltann í höndina á varnarmanni. Ungverski dómarinn dæmdi víti, sem Sævar Atli Magnússon skoraði úr af miklu öryggi.

Forystan entist í sjö mínútur því Matej Valenta jafnaði á 33. mínútu. Hann kláraði þá vel í teignum eftir sendingu frá Krystof Danek frá hægri. Það reyndist síðasta mark fyrri hálfleiks og voru hálfleikstölur því 1:1.

Tékkarnir voru betri framan af í seinni hálfleik, voru meira með boltann og pressuðu íslenska liðið nokkuð. Það gekk þó illa að skapa færi gegn skipulögðu íslensku liði. Hinum megin gekk íslenska liðinu illa að búa sér til færi og ná góðu uppspili.

Tékkar komust síðan yfir á 70. mínútu þegar Václav Sejk fékk frían skalla í teignum eftir fyrirgjöf frá Valenta, sem skoraði fyrra markið. Íslenska liðið reyndi hvað það gat til að jafna metin, en illa gekk að reyna á Matej Kovár í marki Tékka og gestirnir fögnuðu því naumum sigri. 

Ísland U21 1:2 Tékkland U21 opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma. Tíminn er að renna út fyrir íslenska liðið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert