Ósáttur við KSÍ

Kristall Máni á æfingu íslenska liðsins á þriðjudag.
Kristall Máni á æfingu íslenska liðsins á þriðjudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjetil Rekdal, þjálfari norska knattspyrnuliðsins Rosenborg, var ekki sáttur við Knattspyrnusamband Íslands og þá ákvörðun að Kristall Máni Ingason tæki þátt í æfingum U21-árs landsliðsins á dögunum.

Kristall Máni, sem er tvítugur, axlarbrotnaði í leik með Rosenborg gegn Tromsö í lok ágúst og var búist við því að hann yrði frá næstu sex vikurnar vegna meiðsla.

Eftir að leikmaðurinn meiddist fékk hann að fara heim til Íslands en það kom honum á óvart að hann hefði tekið þátt í æfingum U21-árs liðsins sem mætir Tékkum síðar í dag í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti í lokakeppni EM 2023.

„Íslenska knattspyrnusambandið hefur rétt á því að kalla hann í hópinn og skoða hann,“ sagði Rekdal í samtali við norska miðilinn Adresseavisen.

„Hlutirnir gróa ekki hraðar á Íslandi og þó hann megi æfa einn þá yrði það galið ef hann myndi bæði spila eða taka þátt af fullum krafti í æfingum liðsins.

Við höfum verið mjög við skýr við knattspyrnusambandið um það að hann yrði frá í sex vikur, tímann sem það tekur fyrir brotið að gróa, og það yrði bókstaflega hættulegt fyrir hann að spila fyrr,“ bætti Rekdal við en Kristall Máni dró sig úr U21-árs landsliðshópnum í gær vegna meiðslanna.

mbl.is