Voru hræddir við okkur

Sævar Atli fagnar marki sínu í dag með liðsfélögum sínum.
Sævar Atli fagnar marki sínu í dag með liðsfélögum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sævar Atli Magnússon skoraði mark íslenska U21 árs landsliðsins í fótbolta er það mátti þola 1:2-tap gegn Tékklandi í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á lokamóti EM á næsta ári. Sævar kom Íslandi yfir en Tékkland svaraði með tveimur mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn.

„Við erum mjög ólíkir sjálfum okkur þegar við fáum þessi mörk á okkur. Þetta var einbeitingarleysi í nokkrar sekúndur. Mér fannst við vera með þá en þetta var klaufalegt hjá okkur. Það sáu það allir sem komu á leikinn í kvöld að við getum náð í úrslit í útileiknum,“ sagði Sævar við mbl.is eftir leik.

Hann segir tékkneska liðið hafa komið því íslenska nokkuð á óvart, en það reyndist erfitt að skapa sér góð færi í nokkuð lokuðum leik.

„Það var skrítið að spila á móti þessu liði, þar sem þeir spiluðu með tígulmiðju. Við áttum ekki von á því og þess vegna vorum við að reyna að lesa þá á fyrstu mínútunum. Það var ekki mikið af færum í þessum leik og það var smá basl að opna þá,“ sagði hann.

Sævar er brattur fyrir seinni leikinn ytra á þriðjudag, sérstaklega ef Tékkarnir taka upp á því að verja forskotið sem þeir náðu í dag. 

„Um leið og þeir komust yfir fóru þeir að tefja og voru hræddir við okkur. Þeir vita að við erum með gæðamikið lið og seinni leikurinn verður fróðlegur. Leikurinn úti verður allt öðruvísi. Þeir munu liggja frá fyrstu mínútu og leyfa okkur að sækja. Ég fékk færi í lokin og þá bjarga þeir nánast á línu. Við vorum oft nálægt því að skapa okkur góð færi. Það vantaði bara lokahnútinn,“ sagði Leiknismaðurinn.

Hann skoraði markið úr víti í fyrri hálfleik sem hann náði í sjálfur. „Ég sá að hann var óöruggur þegar boltinn kemur inn fyrir og ég ákvað að pressa, þar sem mér finnst gaman að pressa. Ég reyndi svo fyrirgjöfina en boltinn fór í höndina á honum. Ég var svo mjög rólegur á vítapunktinum,“ sagði Sævar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert