Ísak Snær Þorvaldsson sóknarmaður úr Breiðabliki hefur dregið sig úr hópi 21-árs landsliðsins í fótbolta fyrir seinni umspilsleikinn gegn Tékkum sem fram fer á þriðjudaginn.
KSÍ tilkynnti þetta í kvöld og skýrði frá því að ástæðan væri sýking í tönn. Í hans stað kemur Hilmir Rafn Mikaelsson, leikmaður Venezia á Ítalíu en hann er 18 ára gamall og á að baki 11 leiki með U19 ára landsliðinu þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.
Íslenska liðið tapaði fyrri leiknum, 1:2, á Víkingsvellinum í gær og þarf því sigur í þeim síðari í Cesko Budejovice á þriðjdaginn.