Þetta er frábært

Valskonur fagna marki í dag.
Valskonur fagna marki í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta er frábært,“ sagði Akureyringurinn Anna Rakel Pétursdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari í fótbolta með Val. Valur er þar með tvöfaldur meistari, en liðið vann bikarmeistaratitilinn á dögunum.

„Markmiðið hjá Val er að ná í alla titla sem eru í boði og við kláruðum það í dag. Við erum auðvitað mjög sáttar með það,“ sagði hún.

Valur tryggði sér titilinn með 3:1-útisigri á Aftureldingu, sem féll úr deildinni fyrir vikið. „Afturelding er með fínasta lið. Við vissum stöðuna sem þær eru í og að þær myndu koma grimmar til leiks. Við lentum í smá basli á köflum en svo kláruðum við þetta fagmannlega,“ sagði Anna um leikinn.

Anna Rakel Pétursdóttir í leik með Val í sumar.
Anna Rakel Pétursdóttir í leik með Val í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

En hvað er það sem gerir Valsliðið svona gott? „Allt saman. Umgjörðin, leikmennirnir og þjálfararnir. Allur pakkinn,“ sagði hún.

Valur mætir Slavia Prag frá Tékklandi í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn kemur. Sigurliðið úr einvíginu fer í riðlakeppnina en Slavia vann fyrri leikinn á Hlíðarenda, 1:0.

„Það er mæting klukkan 11 á morgun og svo leikur strax á miðvikudaginn sem við þurfum að ná góðum úrslitum í. Við mætum sterkar til leiks þá og svo klárum við deildina á laugardaginn og þá getum við fagnað. Við sýndum að við eigum séns í þetta lið. Þetta verður erfitt úti en erum með fullt af sjálfstrausti. Ef við spilum vel eigum við góðan séns á að fara áfram,“ sagði Anna Rakel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert