Selfoss galopnaði Evrópubaráttuna

Katla María Þórðardóttir skoraði í dag.
Katla María Þórðardóttir skoraði í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Selfoss hafði betur gegn Breiðabliki, 2:0, í Bestu deild kvenna í fótbolta á heimavelli í dag. Með sigrinum galopnaði Selfoss Evrópubaráttuna og gaf Stjörnunni aukinn möguleika á að ná öðru sæti af Breiðabliki. 

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en færin voru af skornum skammti. Á 32. mínútu áttu Selfyssingar frábæra sókn þar sem Bergrós Ásgeirsdóttir geystist upp hægri kantinn og sendi fyrir á Miröndu Nild sem skallaði í netið af stuttu færi. Blikar voru alltaf líklegir og leikplanið bauð upp á stöðugar áætlunarferðir upp kantana en það skilaði engu í dag. Þær misstu hreinlega af rútunni.

Staðan var 1:0 í hálfleik en leikurinn snerist heldur betur í seinni hálfleiknum þar sem bætti mikið í vindinn og Blikar tóku öll völd. Selfoss var í nauðvörn á löngum köflum, en þeim leiðist það svo sem ekkert, þar sem varnarleikurinn hefur ekki verið höfuðverkur Björns þjálfara í sumar. 

Selfyssingum gekk hins vegar ekkert að bera boltann upp völlinn og Blikamarkið lá í loftinu. Það var því ísköld og rennblaut tuska sem Blikar fengu í andlitið á 73. mínútu þegar Selfyssingar áttu eina af sínum fáu skyndisóknum. Miranda Nild sendi boltann í gegn á Brennu Lovera, Eva Persson varði frábærlega frá henni en hélt ekki boltanum og Bergrós Ásgeirsdóttir stýrði frákastinu auðveldlega í netið.

Eftir annað markið fjaraði leikurinn hratt út og vonir Breiðabliks um að fá eitthvað út úr leiknum fuku fljótlega út í veður og vind.

Annað sætið í deildinni gefur þátttökurétt í Evrópukeppninni og þar sitja Blikar nú með 33 stig þegar ein umferð er eftir. Stjarnan er í 2. sæti og á leik til góða, gegn Þór/KA á Akureyri á morgun. Stjarnan mætir svo Keflavík í lokaumferðinni á meðan Breiðablik spilar við Þrótt, þannig að það verður mikið í húfi í leikjum liðanna næsta laugardag.

Selfoss 2:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Embla Dís Gunnarsdóttir (Selfoss) kemur inn á
mbl.is