Stórt hlutverk fyrir yngri leikmenn í Albaníu

Arnar Þór Viðarsson er landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands.
Arnar Þór Viðarsson er landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands, lét hafa eftir sér í viðtali, sem KSÍ hefur birt á samfélagsmiðlum, að stór hlutverk séu fyrir yngri leikmenn liðsins í Albaníu.

Arnar segir leikinn mikilvægan í Albaníu þrátt fyrir að Ísrael hafi tryggt sér efsta sætið í riðli Íslands í B-deild Þjóðadeildarinnar með 2:1-heimasigri á Albaníu í gærkvöld. Hann segir að enn sé íslenska liðið að berjast við að komast í 2. styrkleikaflokk fyrir drátt í riðla fyrir undankeppni EM 2024 og með því að ná öðru sætinu í riðlinum í Þjóðadeildinni höldum við þeim möguleika enn á lífi. Þá færir annað sætið í riðlinum Íslandi einnig mjög góða möguleika á að komast í lokakeppni EM 2024 í gegnum Þjóðadeildarumspilið að sögn landsliðsþjálfarans.

„Við erum með sjö leikmenn í A-liðinu sem eru gjaldgengir í U21-liðið og við erum stolt af þeim. Þeir hafa sinnt stórum hlutverkum og í leiknum gegn Venesúela voru þeir allir nema markverðirnir tveir í stórum hlutverkum. Hvort sem Hákon, Ísak, Þórir, Mikael Egill eða Andri Lucas byrja leikinn á þriðjudag eða eru klárir að koma inn á höfum við að sjálfsögðu stórt hlutverk fyrir þá. Það er ekki hollt að vera með of gamalt lið og heldur ekki að vera með of ungt lið. Þeir ungu læra mikið af þeim eldri og þeir eldri sækja orku í þá yngri. Þegar þessi blanda er komin fá allir þessir leikmenn hlutverk og því sé ég stór hlutverk fyrir þessa ungu stráka á þriðjudag,“ segir Arnar Þór.

Arnar Þór nefndi ekki sérstaklega að hann útilokaði að færa markverði niður í U21-liðið fyrir seinni leikinn mikilvæga gegn Tékkum svo enn er ekki loku fyrir það skotið að einhverjar tilfærslur verði milli A-liðsins og U21-liðsins fyrir leikina mikilvægu. 

Elías Rafn Ólafsson er annar tveggja markvarða íslenska karlalandsliðsins sem …
Elías Rafn Ólafsson er annar tveggja markvarða íslenska karlalandsliðsins sem enn er gjaldgengur í U21 liðið. mbl.is/Eggert Jóhannessonmbl.is