Guðjón ekki áfram í Ólafsvík

Þröstur Albertsson formaður Víkings og Guðjón Þórðarson. Sá síðarnefndi verður …
Þröstur Albertsson formaður Víkings og Guðjón Þórðarson. Sá síðarnefndi verður ekki áfram þjálfari liðsins. Ljósmynd/Víkingur

Knattspyrnudeild Víkings frá Ólafsvík hefur ákveðið að bjóða þjálfaranum Guðjóni Þórðarsyni ekki áframhaldandi samning, en hann hefur stýrt karlaliði félagsins síðasta rúma árið. 

Guðjón tók fyrst við Víkingi sumarið 2020, þegar liðið endaði í 9. sæti 1. deildarinnar. Hann sagði starfi sínu lausu eftir tímabilið en tók aftur við liðinu á miðju sumri 2021, en gat ekki komið í veg fyrir fall úr næstefstu deild. 

Hann stýrði Víkingi svo til sjöunda sætis í 2. deildinni á nýliðnu tímabili. 

Tilkynning knattspyrnudeildar Víkings: 

„Stjórn knattspyrnudeildar Víkings frá Ólafsvík hefur ákveðið að endurnýja ekki samning við Guðjón Þórðarson um áframhaldandi samstarf.

Guðjón mun því ekki halda áfram sem þjálfari liðsins. Guðjón hefur í tvígang tekið við liðinu á erfiðum tímapunkti og unnið ákaflega gott starf í þágu félagsins.

Þekking hans og kunnátta sem einn af allra reynslumestu þjálfurum landsins hefur nýst félaginu vel og erum við Guðjóni þakklátir fyrir gott og ánægjulegt samstarf á undanförnum árum.

Við óskum honum að sama skapi góðs gengis í þeim verkefnum sem hann mun taka að sér í framtíðinni. Stjórn Víkings Ó. mun á næstu vikum fara í það að ráða nýjan þjálfara og hefja formlegan undirbúning fyrir næsta keppnistímabil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert