„Stór leikur að spila og við fílum það“

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla.
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska U21-árs landsliðsins í knattspyrnu karla, segir liðið staðráðið í að standa uppi sem sigurvegari í einvígi þess gegn Tékklandi í umspili um laust sæti á EM 2023 í Georgíu og Rúmeníu.

Fyrri leikur liðanna, sem fór fram á Víkingsvelli á föstudag, tapaðist 1:2.

„Þetta var bara jafn leikur. Við byrjuðum leikinn sterkt og við enduðum hann sterkt. Við tökum það með okkur inn í þennan leik.

Þetta eru leikir á mjög háu stigi. Það voru þarna atriði sem við getum bætt og ætlum að reyna að bæta þau á morgun,“ sagði Davíð Snorri í samtali við KSÍ TV í dag.

Spurður hvernig honum litist á verkefni morgundagsins, þegar liðin mætast öðru sinni í Ceské Budovojice í Tékklandi klukkan 16, sagði Davíð Snorri:

„Bara feikilega vel. Þetta er stór leikur að spila og við fílum það. Við lítum á það þannig að við ætlum að fara út úr þessu verkefni sem sigurvegarar.

Við ætlum að sækja þetta sæti sem er í boði til að fara á EM og græða á þessum leik.“

Ísak Snær Þorvaldsson þurfti að draga sig úr leikmannahópnum vegna sýkingar í tönn og Sævar Atli Magnússon tekur út leikbann í leiknum á morgun. Áður höfðu Kristall Máni Ingason og Finnur Tómas Pálmason dregið sig úr hópnum vegna meiðsla.

Í þeirra stað hafa komið inn í hópinn Sveinn Margeir Hauksson leikmaður KA, Ólafur Kristófer Helgason markvörður Fylkis, Birkir Heimisson úr Val og Hilmir Rafn Mikaelsson leikmaður Venezia á Ítalíu. Hvernig hafa þeir komið inn í hópinn?

„Þeir hafa verið mjög flottir. Það að koma inn með stuttum fyrirvara er kúnst en þeir hafa verið miklir fagmenn í öllu sem þeir hafa gert,“ sagði Davíð Snorri að lokum í samtali við KSÍ TV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert