Stjarnan kjöldró Þór/KA og tók annað sætið

Jasmín Erla Ingadóttir og Margrét Árnadóttir eigast við í fyrri …
Jasmín Erla Ingadóttir og Margrét Árnadóttir eigast við í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Óttar Geirsson

Lokaeikur 17. umferðarinnar í Bestu-deild kvenna var spilaður í Boganum á Akureyri í dag. Þór/KA tók á móti Stjörnunni en Stjarnan gat komið sér upp í annað sætið í deildinni með sigri. Þrír af markahæstu leikmönnum deildarinnar voru í eldlínunni en enginn þeirra náði að skora í dag. 

Það má eiginlega segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið jafn og hvort lið átti sínar rispur. Þó var staðan 3:0 fyrir Stjörnuna í hálfleik. Það sem skildi liðin að voru fyrst og fremst góðar hornspyrnur Stjörnukvenna, sem skiluðu tveimur mörkum og markvörslur frá Audrey Rose Baldwin, sem óvænt var í marki Stjörnunnar í dag. Hún lék með HK í Lengjudeildinni í sumar en Stjarnan fékk undanþágu frá KSÍ til að nota leikmanninn í því markvarðahallæri, sem virðist lagst yfir Garðabæinn. 

Stjarnan skoraði flott mark strax á 6. mínútu en þá tók Sædís Rún Heiðarsdóttir fasta hornspyrnu frá hægri. Sendi hún með jörðinni út á Ingibjörgu Lúcíu Ragnarsdóttur, sem hamraði á markið. Boltinn þaut í gegn um aragrúa leikmanna og í netið. Strax á eftir fékk Sandra María Jessen frábært færi en Audrey varði stórkostlega fastan skalla hennar. Annað markið kom líka eftir hornspyrnu. Boltinn kom inn á fjærsvæðið þar sem Heiða Ragney Viðarsdóttir náði góðum skalla, sem rataði upp í markhornið. Undir lok hálfleiksins kom þriðja mark Stjörnunnar en það skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir af stuttu færi eftir flotta rispu Anítu Ýrar upp hægri vænginn. 

Aníta Ýr ákvað svo að skora eitt mark sjálf í byrjun seinni hálfleiks. Hún bara labbaði í gegn um þrjá varnarmenn og setti boltann með vinstri fætinum á nærstöngina. Þrátt fyrir nokkra yfirburði Stjörnunnar fram að leikslokum þá urðu mörkin í leiknum ekki fleiri. 

Stjarnan fór upp í 2. sætið með sigrinum og á nú góðan möguleika á að skáka Blikum í keppninni um Evrópusæti.  

Það var greinilegt að Stjarnan hafði að mun meiru að keppa í dag en heimakonur í Þór/KA. Ákefðin, einbeitingin og gæðin voru mun meiri hjá Garðbæingum, ekki síst eftir að Heiða Ragney kom þeim í 2:0. Aníta Ýr Þorvaldsdóttir byrjaði leikinn á að hrella leikmenn Þórs/KA og hélt því áfram til leiksloka. Það var hrein unun að fylgjast með henni fífla Akureyringa trekk í trekk. Aftur á móti var á köflum átakanlegt að fylgjast með spilamennsku Þórs/KA þar sem aragrúi sendinga fór bara út í bláinn.  

Lið Þórs/KA hefur nú verið í fallbaráttu þrjú ár í röð og vill eflaust gera mun betur. Sandra María Jessen hefur verið mikilvægasti leikmaður liðsins í sumar og erfitt að sjá fyrir sér hvernig liðinu hefði gengið án hennar. Fyrir tveimur árum voru lið Stjörnunnar og Þórs/KA í svipaðri stöðu, þar sem verið var að byggja upp ný lið. Liðin rétt sluppu við fall úr efstu deild árið 2020 en síðan þá hefur Stjarnan stigið stór skref upp á við á meðan Akureyringar hafa lítið náð að bæta sig. Liðið er að vinna fimm leiki á tímabili og daðra við fallið ár eftir ár.  

Þór/KA 0:4 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Stjarnan með öruggan sigur og liðið er nú komið í 2. sæti deildarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert