„Við gerðum okkur erfitt fyrir“ 

Perry McLachlan og Jón Stefán Jónsson, þjálfarar Þórs/KA.
Perry McLachlan og Jón Stefán Jónsson, þjálfarar Þórs/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jón Stefán Jónsson, annar þjálfari Þórs/KA í Bestu-deild kvenna í fótbolta, hlýtur að hafa verið hálfhvekktur eftir leik dagsins þar sem Þór/KA tapaði 4:0 á heimavelli fyrir Stjörnunni.

Fyrsti hálftíminn í leiknum var nokkuð jafn en á þeim mínútum skoraði Stjarnan tvisvar eftir hornspyrnur á meðan Þór/KA klúðraði tveimur dauðafærum. Eftir það leit Stjarnan aldrei til baka og heimakonur voru ekki líklegar til að svara fyrir sig.  

„Við gerðum okkur erfitt fyrir í þessum leik. Við fáum á okkur tvö mörk eftir horn og klúðrum dauðafæri í stöðunni 1:0 og svo aftur í stöðunni 2:0. Ég ætla svo ekkert að fara að ræða varnarleikinn okkar í seinni tveimur mörkunum. Maður verður að líta í eigin barm og taka það á sig að liðið sé ekki betur innstillt þegar kemur í leikinn.“ 

Það má segja að það hafi ekki verið að neinu að keppa fyrir þitt lið þar sem þið eruð ekki lengur í fallhættu. Heldurðu að það hafi haft eitthvað að segja? 

„Ég veit það ekki. Auðvitað var ákveðið spennufall að vera orðin örugg með sætið í deildinni. Við eigum samt að gera þetta betur.“ 

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir var ykkur óþægur ljár í þúfu í dag og gerði mikinn usla á hægri kantinum enda var hún oft dauðafrí og fékk mikið pláss. 

„Við viljum vera þétt lið og færa á milli kanta. Það var ekki bara að færslunar virkuðu ekki heldur vantaði meiri pressu á boltamanninn, þann sem kom boltanum út á Anítu. Boltinn á ekkert að komast svona auðveldlega út á kantana og á milli kanta.“ 

Nú er einn leikur eftir, gegn botnliði KR á útivelli. Heldurðu að það verði erfitt að gíra sig í hann? 

„Nei alls ekki. Það verður tekið á því þar,“ sagði Jón Stefán að skilnaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert