Mikael jafnaði fyrir 10 Íslendinga í blálokin í Tirana

Þrátt fyrir að vera manni færri í 75 mínútur jafnaði Ísland metin gegn Albaníu í blálokin á uppbótartíma, 1:1, í Tirana í kvöld og tryggði sér með því annað sætið í 2. riðli B-deildar Þjóðadeildar UEFA í fótbolta.

Mikael Anderson skoraði markið dýrmæta á sjöundu mínútu uppbótartímans eftir fyrirgjöf Þóris Jóhanns Helgasonar. Þar með fékk Ísland fjögur stig úr fjórum leikjum, gerði jafntefli í öllum leikjum sínum, en Albanir sitja eftir í þriðja sætinu með tvö stig.

Íslenska liðið varð fyrir miklu áfalli á 8. mínútu leiksins. Myrto Uzuni féll í baráttu við Aron Einar Gunnarsson þegar hann var að sleppa innfyrir vörnina, rétt utan vítateigs. De Burgos dómari veifaði leikinn áfram en fékk síðan ábendingu frá myndbandsdómara. Eftir nokkra skoðun dró Spánverjinn upp rauða spjaldið og rak Aron af velli.

Strax í kjölfarið tók Arnar Þór Viðarsson þjálfari Jón Dag Þorsteinsson af velli og setti Daníel Leó Grétarsson í vörnina í stað Arons Einars.

Albanir réðu ferðinni að mestu það sem eftir var fyrri hálfleiks, manni fleiri. Þeir áttu sitt fyrsta skot á 23. mínútu þegar Uzuni skaut framhjá úr ágætu færi í vítateignum.

Ísland fékk hinsvegar dauðafæri upp úr hornspyrnu Ísaks Bergmanns Jóhannessonar á 27. mínútu. Birkir Bjarnason var einn gegn Thomasi Strakosha markverði í markteignum fær en Strakosha lokaði á hann og bjargaði í horn.

Albanía náði forystunni á 35. mínútu þegar Uzuni átti góða fyrirgjöf frá vinstri og bakvörðurinn Emir Lenjani skoraði með föstum skalla af markteignum hægra megin, 1:0.

Rúnar Alex Rúnarsson varði hörkuskot frá Uzuni á 41. mínútu en annars komu Albanir ekki skotum á markið þrátt fyrir að vera mikið með boltann og þeir fengu átta hornspyrnur í fyrri hálfleiknum.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Ísland aukaspyrnu rétt fyrir utan hægra vítateigshornið. Þórir Jóhann Helgason reyndi óvænt skot í hornið nær og var glettilega nálægt því að skora en hann skaut í hliðarnetið utanvert.

Uzuni fékk fyrsta færi síðari hálfleiks þegar hann renndi sér á boltann á markteig á 53. mínútu, eftir fyrirgjöf frá vinstri, en Rúnar Alex var vel á verði og varði me fótunum.

Ísland átti í kjölfarið hraða sókn þar sem Arnór Sigurðsson komst inn í vítateiginn vinstra megin og reyndi skot í hornið fjær en Thomas Strakosha varð skot hans af öryggi.

Birkir Bjarnason átti hörkuskot af 20 m færi á 61. mínútu eftir góða sókn og Strakosha þurfti að kasta sér og bjarga í horn. Upp úr horninu náðu Albanir skyndisókn og Nedim Bajrami skaut rétt framhjá marki Íslands.

Rúnar Alex Rúnarsson varði vel hörkuskot frá Amir Abrashi á 68. mínútu og Nedim Bajrami skaut yfir mark Íslands í kjölfarið.

Arnar Þór Viðarsson gerði þrefalda skiptingu á 69. mínútu og rétt á eftir átti einn varamannanna, Mikael Anderson, fína skottilraun rétt utan vítateigs en beint á Strakosha í markinu.

Jöfnunarmarkið á síðustu stundu

Íslenska liðið sótti meira eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og síðan var jafnt í liðunum frá 85. mínútu þegar Albanir misstu meiddan mann af velli eftir að hafa lokið sínum innáskiptingum.

Uppbótartíminn var sjö mínútur. Þegar hann virtist vera að renna út kom jöfnunarmarkið á sjöundu mínútunni. Þórir Jóhann Helgason sendi boltann fyrir markið frá hægri, boltinn sigldi í gegnum allt í markteignum, Mikael Anderson renndi sér á boltann við stöngina fjær og skoraði, 1:1.

Jafnteflinu var náð með ævintýralegum hætti en það var ekkert meira en íslenska liðið verðskuldaði eftir kraftmikinn síðari hálfleik þar sem varamennirnir létu til sín taka. Það er sigur fyrir þetta lið og liðsheildina að bugast ekki eftir að hafa misst fyrirliðann af velli á upphafsmínútunum og staðist pressu Albana framan af leiknum.

Albanía 1:1 Ísland opna loka
90. mín. 7 mínútur í uppbótartíma!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert