Arnar tekinn við Njarðvík

Arnar Hallsson (t.v.) þegar hann tók við Aftureldingu fyrir nokkrum …
Arnar Hallsson (t.v.) þegar hann tók við Aftureldingu fyrir nokkrum árum. Hann er nýr þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í knattspyrnu. Ljósmynd/Mosfellingur

Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur náð samkomulagi við Arnar Hallsson um að hann taki við sem þjálfari meistaraflokks karla.

Arnar hefur á sínum ferli meðal annars þjálfað meistaraflokk karla hjá Aftureldingu og ÍR, þar sem hann lét af störfum í júní síðastliðnum.

Hann tekur við starfinu af Bjarna Jóhannssyni og Hólmari Erni Rúnarssyni, sem þjálfuðu Njarðvík í sameiningu og stýrðu liðinu til sannfærandi sigurs í 2. deildinni á nýafstöðnu tímabili, sem þýðir að það leikur í 1. deild, Lengjudeildinni, á næsta tímabili.

„Njarðvík býður Arnar velkominn til starfa hjá félaginu og vonast til að samstarfið verði farsælt. Arnar er nú staddur ásamt fjölskyldu sinni vestanhafs þar sem hann mun fagna 50 ára afmæli sínu á morgun.

Við hlökkum til að taka á móti Arnari í vallarhúsinu þegar hann kemur til baka,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Njarðvíkur.

mbl.is