Hefði verið besta varslan á ferlinum

Albanir reyna skalla að marki Íslands í Tirana í kvöld.
Albanir reyna skalla að marki Íslands í Tirana í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Mér líður eins og við höfum unnið þennan leik,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnum, í samtali við Viaplay eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Albaníu í B-deild Þjóðadeildarinnar í Tirana í Albaníu í kvöld.

„Það er í raun ótrúlegt að við höfum náð þessu jafntefli þar sem við erum einum manni færri í einhverjar 90 mínútur nánast. Þetta sýnir karakterinn í liðinu og hversu mikið við erum tilbúnir að leggja á okkur fyrir hvorn annan.

Ermir Lenjani skoraði mark Albaníu með frábærum skalla á 35. mínútu en Rúnar Alex var ekki langt frá því að verja skallann.

„Þetta hefði líklegast verið besta varslan á ferlinum ef ég hefði varið þetta. Það er aldrei hægt að stoppa allt í fótboltaleik og þeir nýttu sér liðsmuninn vel í fyrri hálfleiki. Þeir létu okkur hlaupa mikið og voru duglegir að skipta á milli kanta og nýttu auðvitað færið sitt vel,“ bætti Rúnar Alex við.

mbl.is