Lætur af störfum hjá Grindavík

Alfreð Elías Jóhannsson á hliðarlínunni í sumar.
Alfreð Elías Jóhannsson á hliðarlínunni í sumar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Alfreð Elías Jóhannsson verður ekki áfram þjálfari karlaliðs Grindavíkur í knattspyrnu á næsta tímabili. Undir hans stjórn hafnaði liðið í 6. sæti 1. deildar, Lengjudeildarinnar, á nýafstöðnu tímabili, hans eina við stjórnvölinn.

„Nú er það orðið ljóst að ég mun ekki halda áfram störfum hjá knattspyrnudeild Grindavíkur á komandi tímabili.

Mig langar að þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með síðastliðið ár fyrir ánægjulegt samstarf.

Það hefur verið lærdómsríkt að þjálfa sinn heimaklúbb og ég hlakka til að fylgjast með Grindavíkurliðinu á komandi árum,“ skrifaði Alfreð Elías á Facebook-síðu sína í morgun.

Alfreð Elías hefur áður þjálfað kvennalið Selfoss, karlalið Ægis og karlalið BÍ/Bolungarvíkur, sem nú ber heitið Vestri.

mbl.is