Jafntefli niðurstaðan í mögnuðum leik í Garðabæ

Stefán Rafn Sigurmannsson og Hergeir Grímsson eigast við í Garðabænum …
Stefán Rafn Sigurmannsson og Hergeir Grímsson eigast við í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan og Haukar skildu jöfn, 29:29, í algjörlega frábærum leik í Olís deild karla í handbolta í Garðabæ í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var virkilega fjörugur. Stjarnan byrjaði betur, varðist vel og sóknarleikurinn gekk nokkuð smurt. Þegar um 10 mínútur voru liðnar komust Haukar þó hægt og rólega í gang og ekki leið á löngu þar til þeir voru komnir yfir. Voru þeir skrefi á undan allt fram á síðustu mínútur hálfleiksins en þá náði Stjarnan góðum kafla og jafnaði leikinn. Þegar liðin gengu til búningsherbergja var allt jafnt, 15:15, í miklum markaleik. 

Í seinni hálfleik var allt í járnum. Liðin skiptust á forystunni og náði hvorugt þeirra að slíta sig frá andstæðingnum. Stjörnumenn réðu illa við hraðann í Andra Má Rúnarssyni og Guðmundi Braga Ástþórssyni á meðan Leó Snær Pétursson fór fremstur í flokki hjá Stjörnunni. Þegar um korter var eftir fékk Stefán Rafn Sigurmannsson að líta rauða spjaldið en hann tók þá vítaskot sem fór í hausinn á Arnóri Frey Stefánssyni markverði Stjörnunnar. Seinni hluta síðari hálfleiks gekk sóknarleikur Hauka brösulega og gátu þeir þakkað Stefáni Huldari Stefánssyni markverði sínum fyrir það að vera enn inni í leiknum. 

Allt leit út fyrir að Stjarnan færi með sigur af hólmi í leiknum en á lokamínutu leiksins stal Brynjólfur Snær Brynjólfsson boltanum og fann Ólaf Ægi Ólafsson sem jafnaði leikinn fyrir Hauka.

Haukar fara því upp í þriðja sæti deildarinnar með 5 stig en Stjarnan er áfram í því sjöunda með 3 stig.

Stjarnan 29:29 Haukar opna loka
60. mín. Stjarnan tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert