Eyjakonur sannfærandi í lokaleiknum

Kristín Erna Sigurlásdóttir og Sigrún Gunndís Harðardóttir eigast við í …
Kristín Erna Sigurlásdóttir og Sigrún Gunndís Harðardóttir eigast við í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann sannfærandi 3:0-heimasigur á föllnu liði Aftureldingar í lokaumferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í Vestmannaeyjum í dag. Olga Sevcova gerði tvö mörk fyrir ÍBV og Ameera Hussen eitt mark. 

ÍBV heldur sjötta sætinu með 29 stig, jafn mikið og Selfoss en með verri markatölu. Afturelding endar í níunda sætinu með 12 stig og er fallið niður um deild. 

Eftir rólegar upphafsmínútur var það Olga Sevcova sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir góða sendingu inn í teiginn frá Ameera Hussen á 11. mínútu.

Afturelding fékk fínt færi á 42. mínútu þegar að Hildur Karítas tók flotta aukaspyrnu inn í teig ÍBV þar sem Kristín Þóra var vel staðsett en náði ekki að stýra skallanum á markið.

ÍBV var með öll völd á vellinum og átti slatta að færum en náði ekki að koma honum aftur yfir línuna fyrr en á 44. mínútu þegar að Ameera Hussen náði að pota honum inn eftir klafs í teig Aftureldingar. Staðan 2:0 í hálfleik.

Þegar að aðeins fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var Olga Sevcova með einkar glæsilegt einstaklingsframtak þegar að hún lék boltann upp allan völlinn og kom honum svo fyrir markið. Þar fór boltinn af varnarmanni Aftureldingar og virtist vera á leiðinni yfir línuna þegar að Eva Ýr í markinu nær á einhvern ótrúlegan hátt að slá boltann út og Afturelding slapp með skrekkinn.

Það voru svo tæpar 60. mínútur búnar af leiknum þegar að þriðja markið leit dagsins ljós. Aftur var það Ameera Hussen á ferðinni með stoðsendingu á Olgu Sevcovu. Ameera með góða sendingu inn fyrir vörn Aftureldingar þar sem að Olga kom hlaupandi á ljóshraða og lagði boltanum glæsilega í fjærhornið.

Eyjakonur með alls 14 skot að marki Aftureldingar sem er mjög lýsandi fyrir leikinn en inn vildi boltinn ekki nema þrisvar sinnum og voru það lokatölur hér í dag, 3:0 fyrir ÍBV í lokaleik sumarsins.

ÍBV 3:0 Afturelding opna loka
90. mín. Eyrún Vala Harðardóttir (Afturelding) á skot sem er varið Skot inní teig úr þröngu færi, vel varið hjá Auði þarna.
mbl.is