Gamla ljósmyndin: Juventus á Íslandi

Morgunblaðið/Bjarni Eiríksson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Sumarið 1986 var lið Vals í skálinni þegar dregið var í 1. umferð Evrópukeppni meistaraliða karla í knattspyrnu þar sem liðið varð Íslandsmeistari haustið 1985. Nafni keppninnar var síðar breytt í Meistaradeild Evrópu. Drógust Valsmenn á móti sjálfum Evrópumeisturunum frá árinu áður, ítalska stórveldinu Juventus. Vorið 1985 hafði Juventus sigrað í keppninni eftir frægan úrslitaleik gegn Liverpool í Brussel. 

Í liði Juventus var Frakkinn Michel Platini sem kjörinn hafði verið knattspyrnumaður ársins í Evrópu þrjú ár í röð 1983, 1984 og 1985. Ári áður hafði Juve einnig tryggt sér Danann Michael Laudrup sem vakið hafði mikla athygli á HM í Mexíkó um sumarið. Auk þess voru í liðinu leikmenn úr heimsmeistaraliði Ítalíu frá 1982. 

Á meðfylgjandi mynd sem Bjarni Eiríksson tók fyrir Morgunblaðið má sjá Michael Laudrup skora annað af tveimur mörkum sínum fyrir Juventus gegn Val á Laugardalsvellinum. Þar mættust liðin 1. október 1986 og birtist myndin í blaðinu daginn eftir. Hilmar Sighvatsson fylgist með og Magni Blöndal Pétursson (4) og Bergþór Magnússon reyna að komast fyrir skotið. 

Rúmlega 6 þúsund lögðu leið sína á völlinn þrátt fyrir kulda og nepju samkvæmt frásögn Morgunblaðsins. 

Ítalirnir nálguðust verkefnið af fagmennsku vitandi að árið áður hafði Valur unnið franska liðið Nantes 2:1 á Laugardalsvellinum. Juventus vann 4:0 en hin tvö mörkin skoraði Platini. Leikinn í Tórínó vann Juventus 7:0 og þar skoraði Laudrup þrennu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert