Gat ekki beðið um tommu meira frá liðinu

FH-ingurinn Ólafur Guðmundsson verst Ara Sigurpálssyni í leiknum í kvöld.
FH-ingurinn Ólafur Guðmundsson verst Ara Sigurpálssyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH, var að vonum svekktur eftir 3:2-tap liðsins gegn Víkingi í framlengdum úrslitaleik Mjólkurbikars karla á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta er auðvitað bara svekkjandi og það er mikið af svekktum strákum inni í klefa hjá okkur. Sem þjálfari gat ég ekki beðið um tommu meira frá liðinu, það skildu allir allt eftir á vellinum, eins og sást undir lokin. Þrátt fyrir allt er þetta samt frábær upplifun fyrir yngri leikmennina, þetta er það sem menn vilja stefna að þegar þeir eru í þessum bransa.“

FH sýndi mikinn karakter með því að koma tvisvar til baka í leiknum eftir að hafa lent undir. 

„Það voru kaflar í fyrri hálfleik eftir að við jöfnum þar sem mér fannst við vera að ná yfirhöndinni. Aftur á móti var kafli í seinni hálfleik þar sem okkur gekk illa að halda boltanum og Víkingarnir voru mun meira með hann. Við vorum aðeins of stressaðir stundum en náðum okkur samt upp úr því og jöfnum en það var full mikill skellur að fá sig mark eftir nokkrar sekúndur í framlengingunni.

Það eru enn fimm leikir eftir af Íslandsmótinu þar sem FH er í mikilli fallbaráttu. Hvaða áhrif hefur svona tap á þessa leiki?

„Vonandi náum við að nýta okkur þetta. Auðvitað er upplifunin sem fylgir svona úrslitaleik meiri en í venjulegum deildarleik en við erum bara ekkert að fara í venjulega deildarleiki. Við erum að fara í fimm úrslitaleiki. Vonandi getum við tekið eitthvað úr þessum leik inn í þá törn. Það er til mikils að vinna.“

Eiður gerði breytingar á liði sínu fyrir leikinn. Var erfitt að skilja reynslumikla menn eins og Steven Lennon og Kristin Frey Sigurðsson eftir á bekknum?

„Það er alltaf erfið ákvörðun þegar þú ert með 20 manna hóp þar sem allir eru 100% klárir, alveg sama hvaða leikmaður á í hlut og hvaða stöðu hann spilar. Ég verð bara að hrósa mönnum fyrir það hvernig þeir tóku þessari ákvörðun og komu tilbúnir inn þegar þeim var skipt inná. Líka þeir sem spiluðu ekki, þetta er alltaf erfið ákvörðun þegar kemur að úrslitaleik.“

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is