KR lauk tímabilinu með sigri 

Rasamee Phonsongkham og Rebekka Sverrisdóttir fögnuðu sigri í dag.
Rasamee Phonsongkham og Rebekka Sverrisdóttir fögnuðu sigri í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

KR og Þór/KA mættust í Frostaskjólinu þar sem lítið var undir nema þá að enda vonbrigðatímabil með sigri. KR hafði 3:2 sigur en endaði samt á botninum með tíu stig. Þór/KA hélt sjöunda sætinu og lauk mótinu með 17 stig. 

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleiknum þar til í lokin þegar KR setti tvö mörk á stuttum kafla. Rasamee Phonsongkham skoraði fyrra markið úr vítaspyrnu en Ólína Ágústa Valdimarsdóttir bætti við marki með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks.  

Þór/KA hristi af sér slyðruorðið í hálfleik og var staðan orðin 2:2 eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Hulda Ósk Jónsdóttir sýndi flott tilþrif í báðum mörkunum með góðum afgreiðslum eftir sendingar af hægri vængnum. Sandra María Jessen hefði átt að skora skömmu síðar þegar hún fékk boltann ein framan við opið mark KR-inga.

Á einhvern óskiljanlegan hátt missti hún boltann frá sér og enn var jafnt. Þór/KA hélt áfram að sækja og skapa færi en það var KR sem skoraði næst. Aftur var það víti sem kom KR yfir og aftur var það Rasamee sem afgreiddi boltann í netið. 3:2 stóð og kortér var eftir. 

KR hélt sínum hlut og ógnuðu gestirnir lítið á lokakaflanum. 

KR 3:2 Þór/KA opna loka
90. mín. Marcella Barberic (KR) fer af velli
mbl.is