Mikið í húfi og mikið umstang

Katrín Ásbjörnsdóttir í baráttunni í dag.
Katrín Ásbjörnsdóttir í baráttunni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við vissum að við þyrftum að klára þennan leik og mættum tilbúnar,“ sagði Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar eftir 4:0 sigur á Keflavík í Garðabænum í dag  þegar lokaumferð efstu deildar kvenna í fótbolta, Bestu deildinni, lauk í dag en sigurinn tryggði Garðbæingum 2. sæti deildarinnar og um leið sæti í Evrópukeppni að ári.

„Við vorum með svipað leikplan og í öðrum leikjum hjá okkur en gott að skora í fyrri hálfleik því þá varð maður aðeins minna stressaður. Það var mikið í húfi og mikið umstang fyrir þennan leik svo maður þurfti að vera á tánum til að halda einbeitingunni bara á honum en ekki einhverju öðru.  Það var ekki erfitt að spenna sig rétt fyrir þennan leik því fyrir nokkrum leikjum síðan lögðum við upp með að vinna okkar leiki og hugsa bara um okkur, það skilaði okkur öðru sætinu í deildinni,“ bætti fyrirliðinn við.

Stefndum alltaf á Evrópukeppnina

Aníta Ýr Ingadóttir úr Stjörnunni fór á kostum framan af leik þegar hún tætti í sundur vörn Keflvíkinga með góðum sprettum upp kantana og átti stóran þátt í fyrstu þremur mörkum Garðbæinga.  „Mér fannst geggjað að vinna, þetta var alltaf markmiðið,“  sagði Anita Ýr eftir leikinn.  Það var ekki endilega planið að taka þessa spretti, heldur keyra bara á vörnina hjá Keflvíkingum og reyna að skora.  Við vorum spenntar að gera út um þennan leik en samt yfirvegaðar og ákveðnar.  Við stefndum allt mótið á Evrópukeppnina og vorum svolítið heppnar að Breiðablik missti stig frá sér og við þá bara kláruðum þetta.  Við fögnum núna en gefum svo allt í næsta tímabil.“

mbl.is