Stuðningsmannalag mótherjanna sett á hæsta eftir sigur

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir í leik með Þrótti á tímabilinu.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir í leik með Þrótti á tímabilinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Það er gott að enda mótið á góðum nótum,“ sagði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir eftir leik Þróttar gegn Breiðabliki í Bestu deild kvenna í fótbolta á dag. Leikurinn var í lokaumferð tímabilsins og fór 3:2 fyrir Þrótt.

Fyrsta lag sem Þróttarastelpur spiluðu inn í klefa eftir sigurinn var Eitt Fyrir Klúbbinn, stuðningsmannalag Breiðabliks sem Herra Hnetusmjör gerði. 

„Smá grín, er það ekki bara gaman,“ sagði Ólöf um lagið eftir leikinn þar sem hún skoraði eitt flott og gilt mark og annað líka gott en það var dæmt af vegna rangstöðu.

„Ég er virkilega sátt með mitt í dag. Það var leiðinlegt að ná ekki fyrri hluta tímabilsins. Ég þráði að spila meira en tek það bara sem hvatningu inn í næsta tímabil, sagði Ólöf sem var að glíma við meiðsli fyrri hluta tímabilsins.

Aldrei fengið jafn mörg stig

Þróttur endaði í 4. sæti í deildinni með 31 stig. 

„Við munum klárlega taka þetta með inn í næsta tímabil og næstu leiktíð. Við gerðum betur en í fyrra sem var markmið tímabilsins. Við förum sáttar frá borði. Við vildum vinna þennan leik fyrir okkur, að við gætum neitað þeim Meistaradeildarsæti var ekki eitthvað sem við vorum að hugsa um sérstaklega,“ sagði Ólöf en Blikar hefðu þurft á sigri að halda til að eiga möguleika á því sem og að Stjarnan myndi ekki vinna sinn leik gegn Keflavík.

Þrátt fyrir að vera stigahærri en í fyrra uppskáru þær ekki Evrópusæti.

„Við gerðum betur heldur en í fyrra og ég er mjög sátt með það. Það voru markmiðin okkar fyrir tímabilið svo við göngum sáttar frá borði. Leiðinlegt að missa af Evrópusæti en það er búið að vera svolítið stöngin út síðustu leiki en í dag endaði þetta stöngin inn,“ sagði Ólöf en þær enduðu tímabilið með 31 stig í ár en voru með 29 stig í fyrra.

Edda Garðarsdóttir, aðstoðarþjálfari Þróttar, deildi áhugaverðari tölfræði liðsins á tímabilinu. Þrátt fyrir að enda sæti neðar en í fyrra hefur liðið aldrei skorað jafn mörg mörk, aldrei fengið jafn fá mörk á sig og hafa aldrei fengið jafn mörg stig. Einnig var leikurinn í dag fyrsti sigur liðsins á Breiðabliki.

mbl.is