Víkingur bikarmeistari í þriðja sinn í röð

Víkingur vann í dag sinn þriðja bikarmeistaratitil í knattspyrnu karla í röð með 3:2-sigri á FH í framlengdum úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli. Víkingur hefur því einnig tryggt sér Evrópusæti fyrir næsta tímabil.

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun. Fyrstu 15-20 mínúturnar einkenndust svolítið af því að menn vildu greinilega ekki gera mistök. Eftir það opnaðist leikurinn og á 26. mínútu kom fyrsta markið. Víkingar sóttu þá hratt og Danijel Dejan Djuric gaf boltann fyrir markið á Pablo Punyed sem kom á ferðinni og setti boltann í netið.  

FH var þó ekki lengi að jafna en einungis tveimur mínútum síðar þræddi Davíð Snær Jóhannsson líklega besta mann fyrri hálfleiksins, Oliver Heiðarsson, í gegnum vörn Víkinga. Oliver stakk alla af og kláraði úr örlítið þröngu færi en Ingvar Jónsson markvörður Víkings varði skotið í stöngina og inn. Bæði lið fengu færi til að komast yfir fyrir hálfleik en allt kom fyrir ekki, hálfleikstölur 1:1.

Víkingur byrjaði seinni hálfleikinn betur og sá að mestu um að halda boltanum. Vörn FH var þétt en liðinu gekk bölvanlega að ná upp spili og skapa sér stöður. Talsvert minna var um færi og fjör en í fyrri hálfleiknum allt fram á síðustu mínúturnar en þá ætlaði allt um koll að keyra. Þegar mínúta var eftir af venjulegum leiktíma átti Logi Tómasson fyrirgjöf frá vinstri sem Pablo Punyed skallaði áfram á varamanninn Nikolaj Hansen sem var réttur maður á réttum stað í teignum. Daninn kláraði auðveldlega í netið og leit allt út fyrir að Víkingar væru að vinna leikinn.

Svo var hins vegar ekki. Í næstu sókn komst Ástbjörn Þórðarson upp að endamörkum hægra megin og átti fyrirgjöf sem virkaði hættulaus. Ingvar Jónsson markvörður Víkings ætlaði að handsama boltann en á einhvern ótrúlegan hátt fór hann undir Ingvar og í netið. Staðan 2:2 eftir venjulegan leiktíma og því var framlengt.

Það tók Víkinga ekki nema 18 sekúndur í framlengingunni að endurheimta forystuna. Logi Tómasson átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri á fjærstöngina þar sem Hansen mætti og skoraði sitt annað mark. Aftur kláraði hann af stuttu færi úr teignum, nú með höfðinu. Mikil þreyta einkenndi framlenginguna eins og gengur og gerist en mikið var um misheppnaðar sendingar og minna um góða spilkafla. Í hálfleik framlengingar var staðan 3:2, Víkingum í vil.

Víkingur spilaði seinni hálfleik framlengingarinnar svo af mikilli skynsemi og gerðu svo gott sem engin mistök. Svo fór að lokum að mörkin urðu ekki fleiri og Víkingar því bikarmeistarar í þriðja sinn í röð.

Víkingur R. 3:2 FH opna loka
120. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu Tveimur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert