Einbeitingarleysi og aftur einbeitingarleysi

Úr leik Leiknis og Fram í dag.
Úr leik Leiknis og Fram í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Mér fannst vanta örlítið upp á Leiknisliðið í dag,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis eftir 2:3 tap þeirra gegn Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag.

Leiknir skoraði fyrsta mark leiksins á annarri mínútu en þegar 20 mínútur voru eftir skoraði Jannik Pohl þriðja mark Fram og staðan var þá 3:1. Á 88. mínútu fá Leiknismenn víti og Óskar Jónsson í liði Fram fékk beint rautt spjald. Emil Berger skoraði úr vítinu svo Leiknismenn voru manni fleiri og einu marki frá því að ná fram jafntefli.

„Þetta var mjög svekkjandi, það hefði verði skemmtilegt að ná að stela stigi þarna í lokin,“ sagði Sigurður.

„Það er margt sem hefði getað farið betur. Það var einbeitingarleysi í fyrsta markinu sem kom úr föstu leikatriði. Það er mjög svekkjandi þar sem við höfum verið sterkir í föstum leikatriðum í sumar. Einbeitingarleysi í seinni hálfleiknum – fyrri hálfleikurinn var jafn fannst mér. Við áttum marktækifæri og þeir fengu einhver líka,“ sagði hann um frammistöðuna í dag.

„Við gerðum breytingar í hálfleik og aftur fáum við ofboðslega lin og aum mörk á okkur en Framararnir stjórna svolítið – Framararnir eru góðir. Mér fannst vanta örlítið upp á Leiknisliðið í dag.“

Nú eru fjórir leikir eftir af tímabilinu og Leiknir er einu stigi fyrir ofan fallsæti.

„Við þurfum meiri einbeitingu og „hungur“ og að vera rólegri og yfirvegaðri á boltanum. Spila okkar leik sem mér fannst við ekki sýna nóg í dag.

Einnig meiri einbeitingu og „hungur“ inni í vítateigunum báðum. Bæði til að skora mörk og fá ekki á okkur mörk úr föstum leikatriðum og fyrirgjöfum,“ sagði Sigurður að lokum og greinilegt að Sigurði fannst vanta upp á einbeitinguna í liðinu.

mbl.is