KA-menn komnir langleiðina með Evrópusæti 

KR-ingurinn Kristinn Jónsson með boltann í dag.
KR-ingurinn Kristinn Jónsson með boltann í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og KR riðu á vaðið þegar fimm leikja úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn í Bestu-deild karla hófst í dag. Leikið var í októberblíðu á Greifavellinum á Akureyri. Fór svo að KA vann 1:0 í frekar lokuðum leik þar sem hart var barist. 

Fyrirliði KR, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, átti að byrja leikinn en hann meiddist í upphitun og Grétar Snær Gunnarsson kom í hans stað. 

Segja má að fyrri hálfleikur hafi verið í jafnvægi en hvort lið átti sína kafla af hálfleiknum. KR byrjaði mun betur og hélt uppi hápressu á lið KA á fyrstu mínútunum. KA kom sér smám saman inn í leikinn og um hann miðjan fengu Akureyringar ágæt færi sem öll fóru forgörðum. Beitir Ólafsson þurfti einu sinni að taka á honum stóra sínum til að bjarga KR-ingum en annars höfðu markmenn liðanna það nokkuð náðugt í fyrri hálfleik. 

Jafn náðugt var það ekki í þeim seinni en Beitir þurfti að sækja boltann í netið strax á 48. mínútu. Fyrirgjöf frá Þorra Mar Þórissyni fór í Pontus Lindgren og skaust í fjærhornið á marki KR. 

KR-ingar tóku við sér eftir markið og þjörmuðu nokkuð að heimamönnum. Uppskáru þeir nokkrar hornspyrnur og var þá stundum handagangur í öskjunni inni á teig KA. Sigurður Bjartur Hallsson komst næst því að skora fyrir KR en Kristijan Jajalo varði frá honum. KA sigldi þessu svo í höfn með frekar leiðinlegum leik þar sem allt tempó var kreist úr leiknum með endalausun aukaspyrnum og kveinki KR-ingum til lítillar gleði. 

KA er nú með 46 stig og á enn fimm stig í topplið Blika. Liðið fór langleiðina með að tryggja sér Evrópusæti í dag en til þess þarf liðið að verða í einu af þremur efstu sætunum. Það væri ekki nema að Valur tæki annað sætið og Víkingar færust niður í það fjórða, sem KA myndi missa af Evrópusæti með því að ná þriðja sætinu. 

Þegar leikurinn er gerður upp má segja að KR hafi verið töluvert meira með boltann en KA fékk fleiri marktækifæri. Hægri vængur KA með Dalvíkingana tvo var ávallt ógnandi og komu flest fær KA eftir sóknir upp hægri vænginn. Sveinn Margeir Hauksson átti sínar eitruðu sendingar en minna kom út úr kantspili KR-inga en venjulega þar sem vörn KA-manna var þétt og Kristijan Jajalo öruggur á milli stanganna. 

KA 1:0 KR opna loka
90. mín. Þorri Mar Þórisson (KA) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert