Ljótt en líka sætt

Frans Elvarsson úr Keflavík.
Frans Elvarsson úr Keflavík. mbl.is/Þórir Tryggvason

Við náðum ekkert að troða boltanum inn og við náðum ekki að losna frá þeim svo þetta var ljótt en sætt líka,“ sagði Frans Elvarsson miðjumaður Keflavíkinga, þar sem hann skilaði sínu í 3:2 sigri á ÍA þegar liðin áttust við í fyrsta leik neðri hluta deildarinnar, Bestu deildarinnar, suður með sjó í dag.

„Við ætluðum í raun að pressa strax og kaffæra þá, það er líka markmiðið hjá okkur til að sýna að við ættum eiginlega að vera í efri hluta deildarinnar svo við ætlum að mæta í hvern leik og sýna hvar við ættum að vera,“ bætti Frans við.

Keflvíkingum var spáð falli af nokkrum spekingum og Frans það ekkert skrýtið. „Við komum liðinu seint saman fyrir tímabilið, vorum í seinustu leikjum í Lengjubikarnum að ná saman okkar sterkasta liði svo við vorum jafnvel óskrifað blað.  Menn voru ekki búnir að sjá okkar sterkasta lið og það hefði verið gaman af lenda í efri hlutanum en nú tökum við bara neðri hlutann með trompi.“

Erfitt að spila við lið sem berst fyrir lífi sínu

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari Keflvíkinga ætlaði sér að borga til baka tapleiki gegn Skagamönnum en vissi líka að þeir yrðu ekki auðveld bráð.  „Við höfum tapað tveimur síðustu leikjum hérna fyrir ÍA og líka í undanúrslitunum í bikarnum í fyrra svo þetta er lið sem við höfum átt í erfiðleikum með og um leið áskorun.  Það fór líka svo að þetta var erfitt hluta af leiknum enda vissum við að Skagamenn voru að berjast fyrir lífi sínu og það er alltaf erfitt að spila á móti liðum í slíkri stöðu svo ég er ánægður með að við tókum þrjú stig, skoruðum þrjú mörk og gerðum margt mjög vel í dag,“ sagði þjálfarinn eftir leikinn.

mbl.is
Loka